149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að verja hluta úr deginum með okkur hér í dag. Ég veit að dagskrá ráðherrans er þétt skipulögð. Það er tvennt sem mig langar að koma inn á í ræðu minni. Í báðum tilvikum er um að ræða spurningu sem ég beini til hæstv. ráðherra. Annars vegar snýr það að því sem notað hefur verið sem eitt af kjarnaatriðum í rökstuðningi fyrir því að orkupakkinn verði innleiddur með þeim hætti sem fyrir er lagt af hæstv. ráðherra, það snýr að neytendamálum eða neytendavernd.

Hér kom hv. formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nokkrum sinnum upp og fleiri fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna. Þau sögðu að eitt af atriðunum sem náð yrði fram með þessari innleiðingu væri aukin neytendavernd og neytendafrelsi. Fólk gæti skipt um raforkusala sem gæti tryggt heimili allt að 2.500 kr. lækkun kostnaður á mánuði, sem „súmmeraðist“ upp í 30.000 kr. á ári. Mér þótti athyglisvert hversu mikil áhersla var lögð á það atriði og skoðaði þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir, álit meiri hluta utanríkismálanefndar, framsöguræðu hæstv. ráðherra og framsöguræðu formanns utanríkismálanefndar þegar mælt var fyrir nefndaráliti.

Hvergi var að finna neina sérstaka áherslu á þessi mál, enda kemur á daginn, og það vissu það svo sem flestir í salnum, held ég, að þessi breyting á réttindum neytenda var komin til á fyrri stigum, þannig að hún hefur lítið með innleiðingu þriðja orkupakkans að gera.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru helstu áhrifin til aukinnar neytendaverndar og bættra hagsmuna í víðum skilningi, heimila í landinu, sem nást fram með innleiðingu þessa þriðja orkupakka? Því að það sem tínt var til sem rökstuðningur fyrir því tiltekna atriði virtist ekki halda þegar var farið að rýna í það.

Talað var um aukið gegnsæi. Ég verð að viðurkenna að ég náði aldrei almennilega hvað verið var að vísa í þar. Þannig að ég skil þetta eftir sem spurningu fyrir hæstv. ráðherra.

Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í er tímaramminn. Ég er hér með viðtal við ráðherrann í Morgunblaðinu frá því 15. nóvember 2018. Fyrirsögn fréttarinnar er: „Fresta orkupakkanum til vors“, sem er þá vorþingið sem er að störfum núna. Þar er viðtal við hæstv. ráðherra Guðlaug Þór Þórðarson þar sem hann segir að það sé líklegt í stöðunni að málinu verði frestað til vors.

Daginn eftir kemur hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í viðtal í sama blaði þann 16. nóvember 2018 undir fyrirsögninni „Útilokar ekki frekari frestun orkupakka“. Í viðtalinu við hæstv. iðnaðarráðherra segir, með leyfi ráðherra:

„Ekki er útilokað að framlagning frumvarps um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins frestist lengur en til vorþings.“

Sem þýðir þá a.m.k. fram á haustþingið 2019 og mögulega lengur, eins og má skilja af orðum hæstv. ráðherra þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf sagt að okkur liggur ekkert á og við viljum skoða þetta vandlega …“

Mig langar til að heyra afstöðu hæstv. utanríkisráðherra, hvers vegna asinn er jafn mikill og virðist skína í gegn með þeirri nálgun sem höfð hefur verið við framlagningu málsins og innleiðingu þess og hvenær við lendum að mati ráðherrans á eiginlegu „deadline“ hvað innleiðingu varðar. Og hvort hann sé algjörlega afhuga því að nýta sumarið til að vinna málin með mögulega ígrundaðri hætti.

Niðurstaðan gæti alveg orðið (Forseti hringir.) sú að gera hlutina með nákvæmlega sama hætti. En í millitíðinni gæfist mönnum þó alla vega tækifæri til að kynna málið (Forseti hringir.) betur fyrir hinum almenna borgara.