149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég fagna komu hæstv. utanríkisráðherra hér í sali Alþingis og býð hann velkominn til landsins. Ég vonast til að hann geti lagt orð inn í þessa umræðu og leitast við að svara spurningum okkar þingmanna Miðflokksins sem höfum verið að velta fyrir okkur ýmsum þáttum þessa máls. Fyrri ræðumenn hér í dag hafa komið með ýmsar spurningar og ég ætla að leggja svolítið í púkkið sjálfur og ætla að byrja á því sem kallað er lagalegur fyrirvari.

Þegar í ljós kom í vetur að mikil andstaða væri við innleiðingu þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins meðal þjóðarinnar og víða í flokkum og einnig í liði stjórnarflokkanna — og þegar málið birtist eftir að hafa fengið lögfræðiálit víða að, sem eru uppfull af varnaðarorðum um að hugsanlega sé að finna ákvæði í þessum tilskipunum eða reglugerðum sem ógna stjórnarskránni — þá er málið kynnt hér fyrir þinginu og sagt að innleiða eigi það með lagalegum fyrirvara. Þá virðist málið vera klappað og klárt innan stjórnarflokkanna og það er lagt fram og öll andstaða virðist vera horfin innan þingflokka stjórnarliðsins.

Ég spyr: Við höfum verið að leita að þessum lagalegu fyrirvörum í ræðum stjórnarliða. Þeir hafa bent á ýmis atriði, ýmis orð, ýmsar yfirlýsingar, reglugerðir, lög o.fl. Ég ætla aðeins að fara yfir þessa lagalegu fyrirvara sem við höfum heyrt frá stjórnarliðinu að séu raunverulega þeir fyrirvarar sem verið sé að gera við málið svo að unnt sé að fara með það í gegnum þingið.

Í fyrsta lagi: Yfirlýsing framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, eins framkvæmdastjóra orkumála í Evrópusambandinu, Miguels Arias Cañete, um sérstöðu Íslands, að Ísland sé eyja — að þessi yfirlýsing sé þessi lagalegi fyrirvari. Er það rétt? Er þetta hinn lagalegi fyrirvari, yfirlýsing eins orkumálastjóra Evrópu? Er þetta lagalegi fyrirvarinn, hæstv. utanríkisráðherra?

Í öðru lagi: Sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna frá því í byrjun maí um sérstöðu Íslands, þá sérstöðu að hingað liggi ekki sæstrengur og þess vegna sé mikill skilningur á sérstöðu okkar. Við þekkjum þessa yfirlýsingu. Er þetta hinn lagalegi fyrirvari?

Í þriðja lagi: Frumvarp til breytinga á raforkulögum sem lagt hefur verið fram fyrir þingið og er enn í meðferð þar sem skotið er inn smávægilegri breytingu við 9. gr., ef ég man rétt. En þegar sú breyting er skoðuð kemur í ljós að mjög svipað orðalag er nú þegar í raforkulögum í 39. gr. a. Þá spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Er þetta hinn lagalegi fyrirvari?

Í fjórða lagi: Bent hefur verið á orðalag í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, ofarlega á bls. 3, þar sem sérstaða Íslands er aðallega áréttuð, að ég held, að hingað liggi ekki sæstrengur og muni ekki koma hér nema með samþykki íslenskra stjórnvalda, sem ég myndi telja að þörf væri á allt að einu. Er þetta hinn lagalegi fyrirvari?

Bent hefur verið á reglugerð sem væntanleg væri. Nú er ég með í höndunum drög að þeirri reglugerð. Sú reglugerð mun bíða undirritunar hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en hún hefur ekki verið undirrituð. Í þeirri reglugerð, sem er gefin út af einum af ráðherrunum í ríkisstjórn Íslands, er að finna svipað orðalag og ég hef margoft nefnt, um sérstöðu Íslands, að hingað liggi ekki sæstrengur og hann verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis. Er þessi reglugerð hinn lagalegi fyrirvari, hæstv. utanríkisráðherra?

Ég hef margar aðrar spurningar. Tíma mínum er brátt lokið. Ég held að best sé, á meðan þetta liggur óljóst fyrir, í mikilli andstöðu við meiri hluta landsmanna og m.a.s. í mikilli andstöðu við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, allra flokka sem eiga aðild að ríkisstjórn Íslands, að fresta þessu máli.