149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það hlýtur að hafa verið ríkisstjórninni nokkurt áfall þegar hún leit lögfræðilega álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar. Ef við tölum annars vegar um umfjöllun um mögulegan árekstur við ákvæði stjórnarskrárinnar er því haldið fram a.m.k. tvisvar í álitsgerðinni að þeir telji verulegan vafa á að innleiðing á þessum orkupakka sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Verulegur vafi er orðalagið sem þeir nota, verulegur vafi, herra forseti. Þeir ganga lengra en að rýna samhengi við stjórnarskrá því að þeir greina efnislega ákvæði þeirra reglugerða og tilskipana sem þarna liggja undir. Niðurstaða þeirra, svo það sé bara dregið saman, eru þrjú orð; skipulag, ráðstöfun og nýting.

Það sem þeir segja er þetta: Þeir telja að ákvæði reglugerðar 713/2009 feli í sér að erlendar stofnanir fái a.m.k. óbein áhrif, er orðalagið, á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra orkuauðlinda þjóðarinnar. Það sést, herra forseti, af álitsgerðinni að einhvers konar samskipti hafa verið við utanríkisráðuneytið. Sjötti kafli álitsgerðarinnar er heimild um það. Síðan sést að einhverra hluta vegna hafa þeir talið nauðsynlegt að rita hæstv. utanríkisráðherra bréf, það er dagsett 10. apríl, en þar nota þeir tækifærið og taka fram að í lögfræðilegu tilliti standi tillaga þeirra, sem ég lít á sem þeirra megintillögu í málinu, að málinu verði vísað í sameiginlegu EES-nefndina og sæti þar sáttameðferð á grundvelli ákvæða í samningnum sjálfum.

Þetta er staðan í málinu. Viðbrögðin eru þau að í staðinn fyrir að fara að aðaltillögu þeirra tvímenninga er kosið að fara þá leið að innleiða með hefðbundnum hætti umræddar gerðir, en með því sem kallað hefur verið lagalegur fyrirvari. Þessi lagalegi fyrirvari gufaði upp upp úr klukkan fjögur 15. maí síðastliðinn í ræðu hv. þingmanns og formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, þegar hann svaraði með þeim hætti að hann væri ekki fyrir hendi, þótt ég sé ekki með nákvæmt orðalag við hendina.

Hér kom fát, og er minnisstætt, á ýmsa úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar og þeirra flokka sem fylgja henni að málum í þessu máli og reyndar fleirum. Í millitíðinni hafa komið fram hvers kyns tilgátur og fullyrðingar um hvar lagalega fyrirvarans sé að leita. Þegar og ef hann finnst þarf að leggja fram ítarlega lögfræðilega álitsgerð um það hvert yrði þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara.

Að lokum vil ég segja þetta, herra forseti:

Ég minnist þess ekki að í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar hafi verið minnst á þriðja orkupakkann. Ég lít þannig á að enginn stjórnarflokkanna þriggja hafi umboð kjósenda sinna til að víkja frá þeirri meginreglu í Evrópusamstarfinu sem við höfum lagt til grundvallar, að á meðan það komi til greina (Forseti hringir.) að gera samninga, gagnkvæma, um viðskipti komi ekki til greina að í stað aðgangs að markaði komi aðgangur að auðlindum.