149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Á meðan þessari umræðu hefur staðið höfum við fengið fjöldann allan af fyrirspurnum og ábendingum og hvatningu frá almennum borgurum úti í bæ. Það vill nú svo illa til að hæstv. utanríkisráðherra er í burtu úr salnum í bili og þess vegna er til lítils að þylja upp þessar spurningar þegar hann getur ekki meðtekið þær, þær verða þá bara að bíða næstu ræðu.

Það sem við höfum verið að leggja áherslu á í þessari umræðu er í fyrsta lagi hin almenna andstaða við þetta mál og hættan við það — þarna kemur hæstv. ráðherra aftur, ég gleðst aftur og mun þá bara að byrja þar sem ég hætti. Þá daga og nætur sem þessi umræða hefur staðið höfum við fengið alls konar ábendingar, fyrirspurnir og annað frá fólki sem hefur fylgst með umræðunni dag og nótt. Það hafa komið fram spurningar eins og þessi hér:

Hefur ráðherra rætt við t.d. Norðmenn, Liechtensteina eða jafnvel fyrirsvarsmenn Evrópusambandsins til þess að kanna hvernig þeir myndu taka því ef við myndum nýta 102. gr. og senda málið í samningsferli? Hefur ráðherra upplýsingar um það? Ef engar sérstakrar, hvað á ég að segja, hótanir hafa borist af hálfu þessara aðila eða stórar athugasemdir við það ef við myndum gera þetta, er þá eitthvað sem mælir á móti því að fara þessa leið?

Síðan er tvennt sem varðar Noreg. Nú er hluti innleiðingarinnar í Noregi í ágreiningi og verður tekinn fyrir í stjórnsýsludómstól eftir því sem okkur er sagt þann 23. september nk.

Nú spyr ég ráðherra: Ef svo færi að við myndum innleiða þennan pakka núna eins og hann er en Norðmenn myndu hins vegar henda honum út úr stjórnlagadómstólnum, hvar stæðum við þá? Er ekki skynsamlegt, hæstv. ráðherra, að fresta málinu fram á haust, sjá hvað kemur út úr stjórnlagadómstól í Noregi áður en við förum alla leið?

Ég ítreka það að auðvitað eigum við að nýta 102. gr., við eigum ekki að vera hrædd við það að nota allan samninginn. Við eigum ekkert að velja úr honum eins og af hlaðborði. Við eigum að nýta hann allan.

Ég ætla að ítreka það enn einu sinni: Það er mjög mikilvægt að reyna að fá þetta mál í gegnum þingið í sátt. Það eru 62% landsmanna samkvæmt könnunum á móti þessu máli núna eins og það er. Það kann ekki góðri lukku að stýra að troða málinu eins og það er nú búið ofan í hálsmálið á þessu fólki. Það hefur komið fram, eins og ég rakti áðan, að alþýðusamtökin, verkalýðsfélögin eru á móti málinu eins og það lítur út núna. Garðyrkjubændur, bakarar, heimilin.

Það er allt of mikið í húfi, hæstv. ráðherra. Ég treysti á þig og ég treysti því að þú takir skynsamlega ákvörðun í þessu máli, sem gæti orðið til þess að miklu breiðari sátt myndaðist á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu um þetta mál, vegna þess að það er nauðsynlegt. Þetta mál er (Forseti hringir.) miklu stærra en flokkapólitík. Og það er í sjálfu sér vont að það skuli hafa myndast hér fylkingar, en það varð að gerast. (Forseti hringir.) Það varð einhver að taka upp þessa baráttu.