149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta eru orðnar nokkuð margar spurningar sem við höfum lagt hér fyrir hæstv. utanríkisráðherra og ég ætla að bæta í það. Hann þarf væntanlega að skrá þetta allt skilmerkilega hjá sér, skiljanlega. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi rætt við embættismenn Evrópusambandsins og/eða Noregs um þá stöðu sem kemur upp ef orkupakkinn fer aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og þá sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga Evrópusambandsins og EFTA, þ.e. hvort hæstv. ráðherra hafi rætt við embættismenn ESB og Noregs um þá stöðu sem kemur upp ef orkupakkinn fer aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga þeirra.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort fulltrúar Evrópusambandsins eða stjórnvöld í Noregi hafi beitt þrýstingi eða jafnvel hótunum þess efnis að ef Ísland myndi nýta sér lögformlegan rétt, sem er að finna í EES-samningnum og í 102. gr., til að óska eftir undanþágu frá sameiginlegu EES-nefndinni, yrði það beitt refsiaðgerðum. Hafa þessir aðilar beitt einhverjum hótunum? Ég minni jafnframt á að það er ekki í anda greinarinnar. Það er í anda greinarinnar að leita sátta. Mér finnst svolítið mikilvægt að fá greinargott svar frá hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.

Ef engar hótanir hafa borist frá þessum aðilum, bærum yfirvöldum í Evrópusambandinu og EFTA-ríkjunum, hvað er þá í veginum fyrir því að óska eftir undanþágu frá sameiginlegu EES-nefndinni?

Það var líka gott að fá það fram, og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það, að orkupakki þrjú hefði litla þýðingu fyrir Ísland. Ég held einmitt að það ætti að vera leiðbeinandi fyrir sameiginlegu EES-nefndina að liðka fyrir þessari lögbundnu undanþágu sem skiptir okkur verulegu máli. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra sjái að það er það sem er það haldbærasta í þessu máli. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur. Þá er málið ekki í óvissu. Þá er besta leiðin farin sem álitsgjafar, sérfræðingar, sem margoft hefur verið vitnað í, Friðrik Hirst og Stefán Már, sögðu að væri besta leiðin.

En svo ég haldi aðeins áfram tíminn líður hratt. Ég er með aðra spurningu. Þessar yfirlýsingar, þ.e. EFTA og ESB, um að þau sýni stöðu okkar skilning: Eru þessar yfirlýsingar bindandi fyrir þessi stjórnvöld? En hvað með alla hina lögaðilana sem byggja rétt sinn á samningnum? Hafa þeir t.d. lýst því yfir að þeir ætli ekki að krefjast þess að íslensk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar sem felast í orkupakka þrjú, tilskipun þrjú?

Að lokum, herra forseti, varðandi fyrirvarann í Noregi. Málið í Noregi var mjög heitt, heitar og miklar umræður urðu í norska Stórþinginu. Þá spyr maður sig: Hvers vegna ættu þeir fyrirvarar sem við leggjum hér til eða stjórnvöld að halda fremur en fyrirvararnir í Noregi? Og er ekki nauðsynlegt að fá greiningu á reynslu Norðmanna af innleiðingunni og þar sem gerðir voru þessi átta fyrirvarar og viðbrögð Evrópusambandsins í framhaldi af því?

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi náð að (Forseti hringir.) punkta þetta allt saman hjá sér. Ef ekki þá get ég bara komið hingað aftur og endurtekið spurningarnar.