149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki til siðs, a.m.k. ekki algild regla, að ráðherra taki til máls um mál sem er til umfjöllunar hjá þinginu eins og þetta. Ég man eftir að einn ágætur vinur minn, blessuð sé minning hans, taldi það til mikillar óþurftar ef ráðherra lét sjá sig í umræðu um þingmál, það var hv. þm. Pétur Blöndal, en eftir því hefur verið kallað að ég tjái mig hér og þess vegna mun ég gera það. Ég ætla að reyna að svara þeim spurningum sem hér komu fram.

Út af spurningu hv. þm. Birgis Þórarinssonar vil ég fyrst aðeins segja að enginn hefur beitt okkur neinum hótunum. Þeir erlendu aðilar sem hafa verið að skipta sér af þessu máli eru aðilar sem ég þekki. Ég skal alveg upplýsa um að ég hef talað við þá og sagt eins og er að ég frábiðji mér afskipti þeirra af íslenskum innanríkismálum. Hér er ég að vísa til norska Miðflokksins og samtakanna Nei til EU sem berjast harkalega gegn EES-samningnum með öllum aðferðum og hafa m.a. beitt sér mjög mikið í þessu máli. Ég sagði, held ég orðrétt, við viðkomandi einstakling að fínt væri að fá gjaldeyrinn í landið þegar þeir koma hingað til að heimsækja okkur en það að koma hingað og fara með staðlausa stafi í þessari umræðu til þess að hræða íslenskan almenning er ekki vel þegið af minni hálfu. En auðvitað er þetta frjálst land. Eitt af því sem við hljótum samt að spyrja okkur alvarlega um er hversu eðlilegt það sé að erlend stjórnmálaöfl sem beita sér í ákveðnu máli — í þessu tilfelli hafa þeir í áratugi beitt sér fyrir því að Norðmenn fari út úr EES og reynt allt hvað þeir geta til að skaða EES-samstarfið. Það er umhugsunarefni hversu mikið þeir hafa beitt sér í þessari umræðu hér á landi í mjög langan tíma og ég er ekki að segja neitt sem ég hef ekki sagt við þá. Ég skal alveg viðurkenna að þegar þetta mál kom upp, eins og ég held að ég hafi farið í gegnum í þinginu og annars staðar, fannst mér út af þeim stóru yfirlýsingum sem voru uppi full ástæða til að skoða þetta mál betur. Þess vegna ákvað ríkisstjórnin að fresta málinu þrátt fyrir að það hafi verið lengi til umfjöllunar, farið í gegnum þingið og þrjár hv. þingnefndir mælt með innleiðingu þess. Það er hægt að skoða það í gögnum máls. Þetta var á árunum 2013–2016 ef ég man rétt. Um er að ræða hv. utanríkismálanefnd, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hv. atvinnuveganefnd. Sömuleiðis hafa allir þeir fræðimenn sem að þessu máli hafa komið verið þeirrar skoðunar að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessari innleiðingu. Einn fræðimaður var þó með efasemdir sem oft hefur verið vitnað til og það er Stefán Már Stefánsson. Þær tvær ástæður sem voru sérstaklega nefndar til voru annars vegar stjórnskipunarþátturinn og hins vegar höfðu menn áhyggjur af því, kannski ekki sá fræðimaður, eða ég hef ekki séð það, að við værum að flækja okkur í eitthvert reglugerðarumhverfi sem myndi þýða að við þyrftum að leggja hér sæstreng hvort sem við vildum það eða ekki.

Nú vita menn að umræðan um sæstreng hefur oft verið mikil. Ég held að það sé á engan hallað þegar ég segi að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi sýnt því máli mikinn áhuga og ekkert við það að athuga en þessi umræða var nokkur hérna fyrir nokkrum árum. Meðal annars vorum við þá sett á PCI-lista en þá var hins vegar tekið skýrt fram að það yrði ekki neitt skuldbindandi fyrir stjórnvöld að leggja hann. Sömuleiðis var gert samkomulag á milli forsætisráðherra Íslands og Bretlands um að skoða þessi mál sérstaklega. Hins vegar hafa menn áhyggjur af því hvaða afleiðingar það hefði ef við tengdumst Evrópu.

Til að gera langa sögu stutta varð niðurstaða okkar sú að fara eftir ráðleggingum þeirra aðila sem voru með íhaldssömustu sjónarmiðin varðandi stjórnskipunarþáttinn. Hér er mikið vitnað í þá en ég verð að viðurkenna að mér finnst það ekki alveg vera í réttu samhengi. Þess vegna ætla ég, með leyfi forseta, að lesa fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu frá 10. apríl 2019 þar sem þetta er allt samandregið. Þar segir:

„Í gærkvöld lauk á Alþingi fyrri umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn.“

Þetta var þegar við fluttum málið og fyrri umr. var hér um þá þingsályktunartillögu sem hér er rædd.

„Með þingsályktunartillögunni heimilar Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakka í EES-samninginn. Vegna sjónarmiða sem sett voru fram í umræðunni óskaði utanríkisráðherra frekari skýringa frá sérfræðingum sem unnu álitsgerðir sem fylgja þingsályktunartillögunni. Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur árétta eftirfarandi af þessu tilefni í bréfi til utanríkisráðherra:

1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Að mati þeirra fræðimanna sem hér er mest vitnað til er það alveg skýrt að enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem þeir lögðu til er í samræmi við stjórnarskrá.

„2. Þeir ágallar sem við teljum vera á þessari leið lúta eingöngu að því hvort upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti verði tilefni til athugunar af hálfu ESA, þ.e. hvort innleiðing gerðarinnar standist þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum.

3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd.

b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á.

c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna.

d. Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.

e. Yfirlýsing orkumálastjóra ESB um að framangreindar reglur gildi ekki og hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi, í ljósi þess að Ísland er ekki tengt innri orkumarkaði ESB, dregur að okkar mati mjög úr líkunum á því að ESA geri athugasemdir við innleiðinguna. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu þá hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi.

4. Í áliti okkar lögðum við einnig til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlega EES-nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu. Þessi leið hefur þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni felast ekki þeir lögfræðilegu óvissuþættir sem að ofan er lýst.

5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.“

Hér hefur verið spurt af hverju ekki sé notuð 102. gr. þó að það sé tilgreint ágætlega og ég get tekið undir þau sjónarmið sem þarna komu fram í bréfi til mín frá fræðimönnunum Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst. Í ofanálag fengum við bæði innlenda og erlenda aðila til að leggja mat á þá leið. Það er engin leið að halda því fram, sem er að vísu algjörlega augljóst, að það sé eitthvað innbyggt í samninginn að þessi leið skuli vera farin þegar mönnum finnst bara hlutirnir liggja einhvern veginn þannig. Ef það væri hefði sú leið væntanlega oft verið farin í 25 ára sögu samningsins en það hefur aldrei verið gert. Ég held að ekki sé hægt að velja betri sérfræðinga en þá sem við fengum til að meta þetta. Annars vegar erum við með Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík og hins vegar Carl Baudenbacher sem allir sem hér eru þekkja til.

Carl Baudenbacher segir, með leyfi forseta, í niðurlagi samantektar álitsgerðar sinnar:

„Með tilliti til alls þessa verður að draga þá ályktun að fyrir hendi sé sá möguleiki að hafna upptöku nýrra laga ESB í EES-rétt. Hins vegar er það mál sem hér er til umfjöllunar ekki viðeigandi tilefni til að grípa í neyðarhemilinn.“

Að sömu niðurstöðu kemst Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík.

Þegar allt er samandregið er staðan einfaldlega sú að við erum ekki tengd þessum innri markaði. Það er alveg ljóst að það erum við, þ.e. Alþingi Íslendinga, sem tökum ákvörðun um það ef við ætlum að fara þá leið. Inni í þeim fyrirvara sem kynntur hefur verið fyrir hv. þingmönnum er í nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum, frá meiri hluta atvinnuveganefndar, það sérstaklega tilgreint, þ.e. sú reglugerð sem þarna er um að ræða, sem hefur ekki verið skrifað undir enda er ekki hægt skrifa undir hana fyrr en við erum búin að ljúka málinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.

Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.“

Virðulegi forseti. Þetta liggur alveg skýrt fyrir. Menn spyrja hér: Af hverju frestum við þessu máli ekki? Ástæðan fyrir því að við frestum þessu máli ekki er sú að það er engin ástæða til þess. Hér segja menn réttilega: Heyrðu, það er bara fullt af fólki sem hefur miklar áhyggjur af þessu máli. Það er rétt, það er bara hárrétt, en kosturinn við það að klára þetta mál er sá að þá mun það fólk sjá að þeir sem fóru hér mikinn og með mikinn hræðsluáróður gerðu það innstæðulaust.

Ég hef séð þessa hluti gerast áður. Ég man vel kosningarnar 1995. Þá var ég í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir annað kjördæmi en núna og reyndar kosningastjóri. Einu og hálfu ári á undan höfðu verið fluttar lengstu þingræður sögunnar. Ég hef lesið svolítið í þeim þingræðum og það var alls ekki ósvipaður málflutningur og er núna. Þetta var ekki rætt í þeim kosningum vegna þess að menn áttuðu sig á því strax þá að það var ekki innstæða fyrir þessum stóru yfirlýsingum. Það sama er upp á teningnum hér.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort hægt sé að fara í önnur atriði í þessu máli. Hér hafa menn t.d. fullyrt, ég veit ekki af hverju, að við getum ekki niðurgreitt til húshitunar eftir að þriðji orkupakkinn verður samþykktur. Það er bara algjörlega í okkar valdi. Við setjum 2.000 milljónir á ári í niðurgreiðslu húshitunar núna. Af hverju setjum við 2.000 milljónir? Af því að Alþingi Íslendinga ákvað að setja 2.000 milljónir í það. Ef Alþingi Íslendinga ákveður að setja 2.500 milljónir í niðurgreiðslu húshitunar setjum við 2.500 milljónir í það. Ef Alþingi Íslendinga ákveður að setja í það 1.500 milljónir fara 1.500 milljónir í niðurgreiðsluna. Það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem breytir því, nákvæmlega ekki neitt.

Ef menn vísa í þessu efni til umræðunnar í Noregi, og það er ekkert sem bendir til þess að þeir fyrirvarar sem þar voru settir standist ekki, eru menn hins vegar þar með tengingu við Evrópu með þeim kostum og göllum sem því fylgir. Af hverju eru Norðmenn með tengingu við Evrópu? Af því að þeir ákváðu það sjálfir. Enginn neyddi þá til þess.

Virðulegur forseti. Mér finnst spurningunum sem hér hafa komið upp vera svarað í áréttingu sérfræðinga vegna þriðja orkupakkans, sem allir geta lesið, enda er hún búin að vera á vefnum síðan 10. apríl 2019. Menn verða þá að lesa allt bréfið. Það gæti ekki verið skýrara. Ég ætla að lesa aftur fyrsta punktinn af því að hér var enn og aftur öðru haldið fram og þá vísa ég í þessa fræðimenn:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“

Þetta segja fræðimennirnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst. Áfram halda þeir og segja: „Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“