149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég býð hæstv. utanríkisráðherra velkominn heim og þakka honum fyrir að heiðra okkur með nærveru sinni. Við höfum verið full eftirvæntingar að heyra frá hæstv. ráðherra, en ég verð að segja að a.m.k. fyrir mitt leyti varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðherra sem flutti hér bara gamla prógrammið og endaði svo á því að vísa í heimasíðu ráðuneytisins. Mér virðist að hæstv. ráðherra hafi ekki verið að fylgjast með umræðunni og öllu því sem hefur komið fram í millitíðinni. Já, svo lét hann fylgja gömlu söguna um að ég hefði talað um sæstreng við David Cameron. Mér þótti vænt um að heyra það því að það var frekari staðfesting þess að hæstv. ráðherra hefði engin ný rök í málinu. Ef hæstv. ráðherra kærir sig um að skoða það þá sæi hann að ég hef aldrei verið talsmaður sæstrengs og hætti meira að segja á að vera dónalegur í samskiptum við forsætisráðherra Breta þegar ég féllst á að skoða sæstreng, en sagði um leið að ég teldi að hann myndi ekki henta Íslandi.

Í ljósi þess að hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega enn á ný kunna samsæriskenningu sína um að norski Miðflokkurinn, sá ágæti systurflokkur okkar, sé á bak við þetta allt saman, þá get ég upplýst hæstv. ráðherra um að ég hef ekki haft nokkur einustu samskipti við norska Miðflokkinn um þetta mál, en spyr hins vegar hæstv. ráðherra á móti: Hefur hæstv. ráðherra fylgst með umræðu um þetta mál í Noregi? Hann hefur þá vonandi áttað sig á því að það er ekki bara norski Miðflokkurinn sem hefur haft efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans þar, það er verkalýðshreyfingin, það er stór hluti almennings. Það var Verkamannaflokkurinn ekki hvað síst sem féllst eingöngu á fyrir sitt leyti að hleypa málinu í gegnum þingið ef samþykktir yrðu átta lögformlegir fyrirvarar.

Hvers vegna hafa þessir fyrirvarar ekki verið kynntir formlega hér fyrir þinginu? Hvers vegna hafa þeir í raun verið faldir? Hvers vegna sá íslenska ríkisstjórnin ekki ástæðu til þess að (Forseti hringir.) reyna a.m.k. sams konar fyrirvara og Norðmenn?