149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að forseti hafi tekið eftir þessu. Hæstv. ráðherra er gersamlega rökþrota. Það eina sem við heyrðum hér voru einhverjir útúrsnúningar áfram um sæstrengskenninguna hans. Ég sagði ekki að það væri dónaskapur að skoða málið. Þvert á móti, ég sagði að það jaðraði við dónaskap að segja um leið hver maður teldi að niðurstaðan yrði. En ég, ólíkt hæstv. ráðherra, er iðulega til í að skoða mál til þess að leiða hið sanna í ljós. Og í tilviki sæstrengs taldi ég, eins og ég útskýrði á þeim tíma, að það myndi ekki henta Íslendingum.

Varðandi heimasíðu ráðuneytisins þá nefndi hæstv. ráðherra það áðan að menn gætu séð þetta allt á heimasíðunni. Ég var ekki að tala um Stefán Má og Friðrik Árna, ég var að tala um það sem hæstv. ráðherra sagði um heimasíðuna, línuna sem var gefin fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Hefur hæstv. ráðherra einhvern hug á því að svara spurningu minni um Noreg eða fáum við bara framhald af einhverjum skætingi að hætti hússins?