149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég var ögn bjartsýnn þegar ég heyrði að hæstv. ráðherra ætlaði að vera hér með okkur í dag en sú bjartsýni er ekki á rökum reist. Ég ætla að reyna að setja fram beinar spurningar til að forðast útúrsnúninga.

Fyrsta spurningin er þessi: Hefur ráðherra kynnt sér umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings um þriðja orkupakkann?

Í umsögn hans segir á bls. 2, með leyfi forseta:

„Virðist því eiga að innleiða í íslenskan rétt mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu varðandi helstu náttúruauðlind Íslands með reglugerð en endurskoða síðar — ef sæstrengur verður lagður — lagagrundvöll þeirrar reglugerðar og jafnframt að skoða þá hvort innleiðingin samræmist stjórnarskrá Íslands. Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðrar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“ Rétt eða rangt?

Hér kemur líka: „Í sameiginlegum skilningi utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB kemur fram að vegna sérstöðu Íslands með einangrað dreifikerfi raforku hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis.“

Þá segir hér eftirfarandi: „Að því er varðar innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi eru aðstæður á Íslandi verulega frábrugðnar þeim sem eru til staðar í löndum þar sem orkunet tengjast yfir landamæri. Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður.“

Ég spyr: Hvaða sérstaka samkomulag fyrir Ísland sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti er best fyrir íslenskar aðstæður?

Fleiri spurningar í næstu umferð.