149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki einn af þeim fræðimönnum sem við leituðum til. Ég veit ekki til þess — ég vil bara orða það þannig að það var leitað til þeirra sem almennt eru taldir helstu sérfræðingar okkar þegar kemur að EES-rétti. Það var ekki bara Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst heldur líka Skúli Magnússon og Davíð Þór Björgvinsson.

Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi kynnt mér og þekki sjónarmið þess lögfræðings sem hv. þingmaður vísaði til, en þegar við byggjum okkar ákvarðanir og leggjum drög að því sem við viljum gera, þá kölluðum við til þessa aðila sem allir vita hverjir eru. Af hverju? Vegna þess að þeir eru taldir þeir hæfustu á sínu sviði.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara annað en það að leggja út frá niðurstöðu þessa lögfræðings. En ég held að það sé alltaf góð regla að kalla til færustu sérfræðinga og ég held að enginn dragi það í efa að þeir aðilar sem ég taldi upp og fleiri sem hæstv. iðnaðarráðherra kallaði sömuleiðis til, eru fremstir meðal jafningja hvað það varðar, þó að kalla mætti fleiri til. Ég man ekki eftir þessum einstaklingi í þeim hópi.

Allt það sem hér kom fram og lagt er út af er ég búinn að fara yfir í ræðu minni og fara yfir hvað eftir annað í umræðunni. Auðvitað er hægt að halda því áfram. En það breytir engu varðandi niðurstöðuna.

Stutta svarið við spurningunni er þetta: Það var ekki leitað til þessa lögfræðings. Og ég held að flestir, ef ekki allir sem þekkja til mála, séu sammála um að þeir aðilar sem voru kallaðir til eru meðal hæfustu fræðimanna okkar á þessu sviði.