149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er furðu lostinn eftir ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi að hann skuli fara að taka upp einhverjar dylgjur hér um norska peninga í viðurvist okkar sem höfum verið að tala í þessu máli undanfarið. Hann verður að skýra af hverju hann tekur þetta upp hér við okkur og er með einhverjar dylgjur hér.

Í annan stað kemur hæstv. ráðherra algjörlega tómhentur hingað gagnvart þeim fjölmörgu spurningum sem við lögðum fyrir hann í þeim ræðum sem hann hlýddi á áðan. Hæstv. ráðherra verður að skýra af hverju hann kallar sjónarmið sinna lögfræðilegu ráðunauta, Friðriks Árna og Stefáns Más, íhaldssöm. Mér sýnast þau einkennast af varfærni og gætni umfram allt. Jafnframt ganga þeir lengra en að meta bara í þrengsta lögfræðilega skilningi mögulegan árekstur við stjórnarskrá heldur fjalla þeir um afleiðingar af innleiðingu þessara gerða, þessa þriðja orkupakka. Niðurstaða þeirra er sú sem ég rakti hér, að með innleiðingunni muni erlendir aðilar a.m.k. fá óbein áhrif á skipulag, nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda íslensku þjóðarinnar.

Heyrði ég rétt, herra forseti, er fyrirvara hans að leita í meirihlutaáliti þingnefndar? Hæstv. ráðherra liggur ekki mjög hátt rómur þannig að ég get alveg viðurkennt að ég heyrði ekki nákvæmlega allt sem hæstv. ráðherra lét sér um munn fara. En er hann þar? Og í framhaldi af þessu: Hvar er grjóthörð lögfræðileg álitsgerð um þennan fyrirvara? Það er ekki nóg, hæstv. ráðherra, að vísa til einhvers bréfs sem liggur utan gagna málsins, verð ég að leyfa mér að segja og ítreka það, (Forseti hringir.) og þótti leitt að hæstv. ráðherra skyldi fara ekki með rétt mál hvað það varðaði í fyrri umr. um þetta mál. Ég mun koma með fleiri spurningar í seinni umferð.