149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að verjast því að kalla fram í og ég biðst velvirðingar á því, en þegar upp úr hæstv. ráðherra streyma slíkar endemisfirrur sem raun ber vitni er erfitt að hemja sig.

Ég ætla að ítreka spurningu mína: Leggur hæstv. ráðherra að jöfnu bréf til ráðherra og ítarlega lögfræðilega álitsgerð um áhrif hins lagalega fyrirvara? Við þurfum að vita á hverju þeirra niðurstaða, sem þeir kynna í bréfi sínu, er reist. Það verður að vera ítarleg lögfræðileg álitsgerð og greining. Hvaða áhrif hefur lagalegi fyrirvarinn á mögulegan árekstur við stjórnarskrá? Hvaða áhrif hefur lagalegi fyrirvarinn á afleiðingar af innleiðingu þriðja orkupakkans, sem þeir segja að feli í sér a.m.k. óbein áhrif erlendra aðila á skipulag, ráðstöfun og nýtingu íslenskra orkuauðlinda?