149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað í ræðu og vona að það verði önnur hér á eftir þar sem hann svarar spurningum. Ég lagði fram tvær og var svo óheppinn að ég fékk svar við hvorugri en það tekst kannski í annarri tilraun. Ég náði ekki að halda utan um allar spurningar félaga minna en miðað við það að ég fékk svar við hvorugri geri ég ráð fyrir að eitthvað sé til í þeim athugasemdum sem komu fram í frammíköllum varðandi það hvort ráðherrann ætlaði ekki að svara einhverjum þeirra spurninga sem fyrir hann voru lagðar.

Það sem mig langar að koma inn á til viðbótar við það sem ég kom inn á í ræðu minni áðan eru atriði sem snúa m.a. að greiningu á stöðunni, hvernig hún breytist fyrir innlenda aðila að aflokinni tengingu þegar sæstrengur verður lagður. Eins og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturla Böðvarsson, orðaði það í blaðagrein fyrir ekki löngu síðan skiptir ekki öllu máli að hafa aðkomu að ákvörðun um lagningu strengs, sem verður eflaust og án nokkurs vafa lagður á einhverjum tímapunkti, ef menn missi samtímis stjórn á orkumarkaðsmálum í miklum mæli. Það er óboðleg staða að mönnum sé ekki boðið upp á sviðsmyndagreiningu. Jafnvel myndi duga ef ein slík, vel útfærð, lægi fyrir, þá gætu menn alla vega rökrætt hlutina út frá því.

Okkur þingmönnum er boðið upp á að vissulega er þessum meinta fyrirvara flaggað varðandi aðkomu Alþingis að tengingu þegar að henni kemur en engin umræða getur átt sér stað á grundvelli greiningar á því hvernig staðan verður eftir tengingu. Þetta er hlutur sem ég hef reynt að leggja nokkra áherslu á í ræðum mínum í umræðunum hingað til, að reyna að spyrja spurningarinnar: Og hvað svo? Það er í því samhengi að við reynum að átta okkur á hvaða staða bíður okkar eftir að sæstrengur hefur verið lagður. Ég tek undir þá afstöðu fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarssonar, að það er kjarnaatriði í þessu máli öllu að hafa forsvaranlega greiningu á því hvað tekur við að aflokinni tengingu.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki boðið upp á sviðsmyndagreiningu varðandi það hvernig regluumhverfið allt mun líta út gagnvart þeim athugasemdum sem komið hafa fram við umfjöllun um málið um hvað tekur við?

Til viðbótar við þetta langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af því, verði staðan sú að einhver af þeim áhyggjuatriðum sem við í Miðflokknum höfum bent á og komið inn á raungerist, að þrýstingur á EES-samninginn aukist vegna þess?

Nú minnka væntingar mínar hratt hvað það varðar að fá svar við fyrirspurnum mínum, en hæstv. ráðherra er hættur í símanum. Ég ætla þá að endurtaka spurninguna varðandi EES-samninginn. Því hefur verið haldið fram að málflutningur okkar efasemdarmannanna grafi undan EES-samningnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að verði staðan sú að eitthvað af áhyggjum okkar Miðflokksmanna raungerist muni það setja sérstakan þrýsting á EES-samninginn eftir að tenging hefur orðið til með lagningu sæstrengs.

Mig langar að ítreka spurningu mína frá því áðan. Það var ekki svar við spurningunni að segja að það væri svo gott að klára málið núna af því að þá kæmi í ljós að þetta væri tóm vitleysa sem Miðflokkurinn væri að halda fram. Það eru ekki boðleg rök. Ég spurði hæstv. ráðherra hvert væri eiginlegt „deadline“ sem við stöndum frammi fyrir. Miðað við orð hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, virtist ekkert því til fyrirstöðu að fresta málinu, a.m.k. til haustþings 2019.

Tíminn er liðinn þannig að ég vona að ég fái tækifæri til að koma í aðra ræðu áður en hæstv. ráðherra þarf að yfirgefa svæðið. (Forseti hringir.) En ég vil alla vega koma þessu atriði að með sviðsmyndagreininguna. Hvers vegna er ekki boðið upp á slíka? Síðan um EES-samninginn og þrýstinginn sem kann að myndast, (Forseti hringir.) raungerist áhyggjur okkar Miðflokksmanna, og síðan ítreka ég tímapressuna sem málið virðist sett í núna, hvers vegna hún er. Að það sé til að draga fram (Forseti hringir.) hversu vitlausir við Miðflokksmenn erum er ekki boðlegt svar.