149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru algjörlega orð hv. þingmanns að Miðflokksmenn væru vitlausir. Ég notaði þau orð ekki og hef ekki notað þau í þessari umræðu, bara svo það sé alveg kýrskýrt. Það hefur ekkert mál mér vitanlega verið undirbúið jafn vel og þetta, ekkert sambærilegt mál, þannig að þegar hv. þingmaður talar um sviðsmyndir og annað slíkt er búið að fara í gegnum það, eins og ég fór í gegnum. Ég var algjörlega að hrósa viðkomandi fræðimanni, Stefáni Árna Stefánssyni, hann sagðist vera íhaldssamur þegar kæmi að stjórnskipuninni. Farið var að tillögum Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts hvað varðar framkvæmd þessarar innleiðingar.

Ég hef engar áhyggjur af því ef við klárum þetta mál að það muni grafa undan EES-samningnum, ekki nokkrar einustu. Ég hef hins vegar áhyggjur af því, og þess vegna vísaði ég í þessa norsku aðila, að verið sé að grafa undan EES-samningnum, m.a. í umræðu um þetta mál. Og bara varðandi sæstrenginn er alveg kýrskýrt að við ákveðum það. Ef þetta mál nær fram að ganga, eins og lagt er upp með, þarf sérstaklega að skoða stjórnskipunarþáttinn aftur ef Alþingi Íslendinga ákveður að fara út í sæstreng, sem ég mæli ekki með.

Ég sé enga ástæðu til að fresta málinu bara til að fresta því. Ég fullyrði að ekki hafi í neinu innleiðingarmáli farið fram jafn djúp og jafn mikil umræða fram þar sem kallaðir voru til jafn margir fræðimenn og jafn mikið og jafn vel unnið í hv. þingnefndum, sérstaklega núna í hv. utanríkismálanefnd og hv. atvinnuveganefnd, en sömuleiðis í þeim nefndum sem fjölluðu um þetta mál áður. Okkur er ekkert að vanbúnaði að klára þetta mál.