149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið þó að ég sé svo sem, eins og þarf ekki að koma á óvart, hissa á sumum svaranna. Mig langar í þessu samhengi að minna hæstv. ráðherra á fyrirspurn mína er sneri að þeim atriðum sem eru íslenskum heimilum til hagsbóta með innleiðingunni, af því að kjarnaatriði í rökstuðningi hv. formanns utanríkismálanefndar var hið aukna frelsi til að skipta um raforkusala. Auðvitað áttuðu menn sig á því að sú breyting var löngu orðin, hún varð í kjölfar breytingar á raforkulögum 2003, ef ég man rétt. Hvað er þá eftir? Ekki var komið inn á það atriði í ræðu eða svari ráðherrans: Hvað er það annað sem er innlendum heimilum til hagsbóta? Úr því að það atriði sem helst var flaggað sem rökstuðningi virðist hafa verið á nokkrum misskilningi byggt, þó að ég dragi það ekki í efa að það sé jákvætt að menn geti valið sér raforkusala.