149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður dró þá ályktun að einhver væri hræddur við norska Miðflokkinn eða Nei til EU. Hv. þingmaður fullyrti að það væru staðlausir stafir að þessir aðilar hefðu reynt að hafa áhrif í íslenskri umræðu og ég hrakti það. Ég skil að vísu ekki hvernig þetta hefur farið fram hjá hv. þingmanni. Ég er ekki logandi hræddur við einn einasta Norðmann, ekki einu sinni norska Miðflokkinn. Hins vegar fullyrði ég að þeir eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni þegar þeir beita sér með þessum hætti á Íslandi. Ég fullyrði það. Það er eitthvað annað sem liggur undir. Það sem liggur undir er andstaðan við EES-samninginn. Þessir hv. þingmenn eða þessir Norðmenn, þeir eru ekki þingmenn allir þó einhverjir séu það, eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni. Þeir munu ekki koma hér í næsta mál sem við ræðum og hugsa: Nú þurfum við að hjálpa vinum okkar Íslendingum af því að við höfum áhyggjur af því hvert þeir eru að fara með sín mál. Það er alls ekki þannig. Ég hlýt að mega benda á að þeir séu að reyna að hafa afskipti af íslenskum stjórnmálum.

Ég veit ekki hversu oft á að fara inn í þennan fyrirvara, virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður verði ekkert sannfærður, sama hvernig verður farið yfir það. Stóra málið er líka þetta, sem er grunnurinn að málinu: Við ákveðum það og enginn annar hvort við leggjum sæstreng. Það er Alþingi Íslendinga sem ákveður það. Það er grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði í málinu. En ef við leggjum sæstreng til Evrópusambandsins þá þurfum við að skoða þennan þátt málsins, stjórnskipulegan þátt málsins, aftur (Forseti hringir.) sem ég tel vera mjög mikilvægt.