149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. minni hluta (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegi og skörulegi forseti. Mikið er gott að sjá hæstv. forseta því ef einhver maður getur haft hemil á hæstv. utanríkisráðherra þá er það væntanlega sá forseti sem nú situr. Og ekki veitir af miðað við framgöngu hæstv. ráðherra fram að þessu. Við höfðum beðið lengi eftir svörum frá ráðherranum og þegar hann loksins fannst og mætti þá svaraði hann í engu spurningum okkar, virðist raunar ekki hafa fylgst með umræðunni, vísaði í vefsíðu ráðuneytisins, sagði að þar væri að finna svör við öllu sem við værum að ræða og bætti svo við tómum skætingi.

Í ljósi þess að hæstv. ráðherra sá sér ekki fært að svara andsvari þá ætla ég að ítreka nokkur af þeim atriðum sem ég nefndi áðan í von um að ráðherrann treysti sér til að svara þeim í andsvari við mig.

Norska samsæriskenning ráðherrans var endurvakin hér. Hún gengur út á að það sem við í Miðflokknum, flokksmenn hans sjálfs, flestir í Sjálfstæðisflokknum, stuðningsmenn Framsóknarflokksins, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, verkalýðshreyfingin á Íslandi og mikill meiri hluti almennings hefur áhyggjur af, sé allt hluti af einhverju norsku samsæri, menn séu að láta fjarstýra sér frá Noregi.

Í ljósi þessa sérstaka Noregsáhuga hæstv. ráðherra spurði ég hann út í það, og ítreka nú þá spurningu, hvort hann hefði kynnt sér fyrirvara norska Stórþingsins við innleiðingu þriðja orkupakkans þar. Rétt eins og hér á landi voru mjög margir úr mörgum ólíkum flokkum mjög áhyggjufullir yfir innleiðingu þriðja orkupakkans og norska verkalýðshreyfingin og stór hluti Norðmanna hafði af þessu miklar áhyggjur. Það var brugðist við með því að láta fylgja átta einhliða fyrirvara sem áttu að verða lagalegir fyrirvarar.

Í fyrsta lagi: Hvers vegna settu íslensk stjórnvöld ekki fram slíka fyrirvara?

Í öðru lagi: Þrátt fyrir að fyrirvarar Norðmanna hafi verið miklu afdráttarlausari og skýrari en hinir meintu fyrirvarar íslensku ríkisstjórnarinnar hefur ekkert verið gert með þá. Í ljósi þess, hvers vegna í ósköpunum heldur hæstv. ráðherra að eitthvert hald verði í þessum íslenska fyrirvara?

Hæstv. ráðherra talaði mikið um bréf sem ráðuneyti hans kallaði eftir til áréttingar, taldi sig þurfa þess greinilega, á álitsgerð margnefndra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. En hæstv. ráðherra skautaði fram hjá meginefni þess bréfs og fram hjá þeirri staðreynd að sama dag og ráðherrann birti bréfið lýsti Friðrik Árni Friðriksson Hirst því yfir að aðferðin væri ekki gallalaus og henni fylgdi áhætta. Og raunar lýstu þeir félagar því yfir í viðtali við Ríkisútvarpið að þeir væru ekki þannig séð að leggja neitt til og tóku ekki ábyrgð á nálgun ráðherrans.

Í utanríkismálanefnd sögðu þessir góðu fræðimenn að forsenda þess að leið ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherrans stæðist stjórnarskrá — þetta er vel að merkja bara einn afmarkaður angi málsins — væri sú að fyrirvarinn væri þess eðlis að innleiðingin tæki ekki gildi, þ.e. það þyrfti að vera með þeim hætti að innleiðingin tæki ekki gildi fyrr en hugsanlega eitthvað gerðist. Þetta er ekki sú leið sem hæstv. ráðherra er að fara. Hann ætlar að innleiða að fullu en láta fylgja einhverjar athugasemdir í fyrirvara.

Þegar margnefndir fræðimenn voru spurðir hvort þeir hefðu séð fyrirvarana þá höfðu þeir ekki gert það. Bréfið sem hæstv. ráðherra vísar til getur fyrir hann í besta falli túlkast sem árétting þess að til að fyrirvararnir gildi gagnvart stjórnarskrá — og aftur, það er bara afmarkaður þáttur málsins — þá þurfi þeir að vera þess eðlis að innleiðingin taki ekki gildi.

Það var reyndar svo margt í ræðu hæstv. ráðherra sem ástæða er til að spyrja hann út í vegna þess að hann flutti bara gamla prógrammið sitt. Mér gefst ekki tími til að klára það hér en ég vona að það fáist einhver svör frá ráðherranum eftir þessa fyrstu umferð.