149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti sé jafn undrandi og ég á brotthvarfi hæstv. utanríkisráðherra. Ekki veit ég hvort hæstv. forseti saknar ráðherrans, en ég a.m.k. sakna hans í þeim skilningi að ég hefði viljað fá einhver svör við þeim fjölmörgu ábendingum sem við höfum rætt hér í dag, og ekki bara í dag heldur undanfarna daga og nætur, málið stöðugt verið að þróast, nýir hlutir að koma í ljós jafnt og þétt. En svo mætti hæstv. ráðherra og svaraði engu. Ja, hv. þm. Bergþór Ólason telur að hann hafi hugsanlega svarað einni spurningu en svaraði nánast engu, en sýndi tóman skæting og lét sig svo strax hverfa aftur.

Svo að ég svari spurningu hv. þingmanns: Ég man ekki eftir öðru eins, ekki í svona stóru máli, að þegar ráðherra loks finnst og fæst til að mæta í þingið skuli hann einfaldlega flytja gamla prógrammið sitt, sem að miklu leyti gengur út á að reyna að kenna öllum öðrum um að hann sé að innleiða þennan þriðja orkupakka, þ.e. vegna þess að ég hafi hitt David Cameron fyrir fjórum árum, eða að það sé vegna þess að einhverjir Norðmenn séu í hverju horni að blekkja Íslendinga, en rökstyður í engu málið umfram það að segja bara að svör við öllu sé að finna á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Þetta vekur undrun, herra forseti, og ekki bara það, þetta hlýtur að vera til þess fallið að vekja enn frekari áhyggjur af þeim atriðum sem við höfum verið að reyna að benda á hérna undanfarna daga og nætur og ekki fengið nein svör við, því að ekki láta stjórnarliðar svo lítið að mæta í ræðustól til að svara svo sem eins og einni spurningu.

Svoleiðis að þessi heimsókn hæstv. ráðherra er fyrst og fremst til þess (Forseti hringir.) fallin að ýta undir áhyggjur okkar og í raun að mínu mati staðfesta þær.