149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið. Mig langar til að koma aðeins inn á þetta eina svar sem ég náði út úr hæstv. utanríkisráðherra sem eitthvert tak var í, en það sneri að hagsmunum innlendra heimila af innleiðingu þriðja orkupakkans, því að hér hefur mikið verið látið með það að verulegir hagsmunir séu undir fyrir heimilin, heimili geti lækkað orkureikninginn um allt að 2.500 kr. á mánuði með því að skipta um orkusala. Síðan kom í ljós að heimild til að skipta um orkusala hefur verið til staðar lengi og það var allt byggt á einhverjum misskilningi að þetta væri stóra hagsmunamálið fyrir innlend heimili í tengslum við þessa innleiðingu.

Þá kom svar ráðherrans í lokatilraun, sem ég var orðinn vondaufur um að myndi skila nokkru. En hann svaraði því þó til, hæstv. ráðherrann, að hagsmunir heimilanna í þessari innleiðingu sneru að sterkari stöðu Orkustofnunar. Eftirlitshlutverk Orkustofnunar skyldi styrkt og þar lægju hagsmunir innlendra heimila.

Það eina sem ég hef séð af gögnum málsins að tryggt sé í hendi hvað það varðar er hækkað eftirlitsgjald, þannig að útgjaldahlutinn af þessum breytingum gagnvart íslenskum heimilum er tryggur.

En miðað við þessar litlu heimtur hvað bætta hagsmuni innlendra heimila varðar í pakkanum í heild sinni, miðað við svar ráðherrans, hvernig slær það hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson? Telur hann að þeir hagsmunir sem hafa verið tilgreindir hvað aðra þætti varðar séu af svipuðu hlutfalli þegar á reynir, að (Forseti hringir.) ekki sé mikið að sækja varðandi svar við spurningunni: Hvað er í þessu fyrir okkur?