149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Eftir frammistöðu hæstv. utanríkisráðherra hér í fyrri hálfleik er ég ekki lengur jafn hissa á því hvað þingmálið um þriðja orkupakkann er svakalega lélegt og illa upp byggt. Ég ætla ekki að segja að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum því það væri nú eiginlega grunnt í árina tekið. Ég varð satt að segja furðu lostinn yfir því að fagráðherra skyldi koma hingað til leiks og hafa ekkert í farteskinu, ekki neitt. Nema eins og ég segi einhverjar ferðasögur af Norðmönnum sem koma hingað heim og eru kannski áhrifavaldar í lífi ráðherrans, þeir eru alla vega ekki áhrifavaldar í mínu lífi. Og síðan að upplýsa okkur um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi einu sinni hitt David Cameron en það var mér reyndar kunnugt.

Það er aftur á móti annað að hæstv. ráðherra gerði lítið úr umsögn lögfræðings sem heitir Eyjólfur Ármannsson. Ég geri ráð fyrir því að Eyjólfur Ármannsson lögmaður sé að horfa á þessa útsendingu. Hann hefur þá fengið það beint í æð að hæstv. ráðherrann gerði lítið úr hans fræðimennsku.

Í sjálfu sér kom hæstv. ráðherra hingað til leiks eins og ölgerðarhestar voru búnir í gamla daga, með spjald fyrir báðum augum þannig að þeir sæju ekki nema bara beint fram fyrir sig. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra spurninga. Ég ætla að vitna í vel þekktan texta eftir Halla og Ladda úr laginu Roy Rogers og spyrja ráðherra: Hvað ertu að gera hér? Mér er það alls ekki ljóst. Ráðherra kemur með svona, hvað á ég að segja? Mig langar mig að beita fyrir mig enskri tungu, herra forseti. Ég veit að forseta er illa við það. Kemur með dass af yfirlæti og skítkasti.

Þetta urðu mér mikil vonbrigði vegna þess að ég taldi að með því að ráðherra kæmi hingað ættum við kannski meiri möguleika á því að afgreiða málið sem nú er til meðferðar með sæmilegum hætti í gegnum þingið vegna þess að auðvitað berum við virðingu fyrir tíma þingsins. Það hefur nú þegar komið fram að umræðan um þetta mál hefur ekki raskað dagskrá þingsins svo neinu nemi, hún hefur ekki farið fram á venjulegum þingfundatíma þannig að við höfum ekki verið að þvælast fyrir nokkrum manni.

En þetta veldur mér áhyggjum, herra forseti, vegna þess að þessi afstaða og einstrengingsháttur, svo ég sé kurteis, hæstv. ráðherra segir mér það að þessu máli á að böðla í gegnum þingið eins og við höfum verið að ræða hér undanfarna daga og nætur. Það á að böðla því í gegn þrátt fyrir andstöðu meira en 60% landsmanna, þrátt fyrir andstöðu Alþýðusambandsins, einstakra verkalýðsleiðtoga, garðyrkjubænda, bakara, Hagsmunasamtaka heimilanna. Það á að böðla þessu máli í gegn, sama hvað.

Herra forseti. Það hlýtur að verða til þess að afgreiðsla þessa máls í annarri umferð mun tefjast enn um hríð. Ég sé ekki annað í stöðunni, því miður. Ég hafði sannarlega gert mér í hugarlund að heimsókn ráðherrans gæti orðið til þess að skýra eitthvað, auka skilning manna á milli, en því fer fjarri. Ráðherrann kom eiginlega svona málefnalega á nærbuxunum til leiks. Hann hafði engin svör, engin. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að hann hefur ekki kynnt sér þetta mál vel sjálfur.

Nú ætla ég að snúa við einu sem hæstv. ráðherra hafði uppi meðan hann var hér. Hann ráðlagði mönnum eindregið að lesa alla greinargerð Stefáns Más Stefánssonar (Forseti hringir.) og Friðriks Hirsts. Eins og menn séu ekki búnir að gera það. Ég ætla aftur á móti (Forseti hringir.) að ráðleggja ráðherra að lesa umsögn (Forseti hringir.) Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings áður en hann heldur áfram að gera lítið úr hans fræðimennsku.

(Forseti (BN): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)