149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og tek undir með honum um að þessi viðvera hæstv. utanríkisráðherra, sem loksins varð að veruleika í dag eftir ítrekaðar beiðnir okkar Miðflokksmanna um að svo yrði, var afar sérstök. Hæstv. ráðherra gerir lítið úr hv. alþingismönnum og skellir því hér fram að doktor í hagfræði og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, sé ekki búinn að lesa sér nógu vel til.

Herra forseti. Þetta er náttúrlega bara óboðlegur málflutningur. Þetta á bara heima á einhverjum málfundaræfingum í Valhöll. Maður skilur ekki að hæstv. ráðherra skuli setja svona fram þegar við erum búin að fara ítarlega yfir þetta mál svo dögum skiptir, ræða það hér langt fram á nóttina og undir morgun.

Herra forseti hefur ekki haft miklar áhyggjur af vinnulöggjöfinni og tilskipunum Evrópusambandsins þegar kemur að vinnutíma. Hér er málið keyrt áfram endalaust. En svo þegar kemur að því að við möldum í móinn varðandi það að innleiða þessa tilskipun, þá þarf að fylgja EES-reglum og regluverki Evrópusambandsins alveg í þaula.

Ég vildi bara koma því að varðandi þetta mál og spyrja hvort hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson minntist þess að ráðherra hafi gert jafn lítið úr þingmönnum og hann gerði hér í dag.