149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fljótu bragði man ég eftir einum ráðherra sem komið hefur svipað fram. Hann er partur af þessum samrunaflokkum í ríkisstjórninni, VG og Sjálfstæðisflokknum, þ.e. hæstv. heilbrigðisráðherra, sem kemur gjarnan með hofmóð og hroka. Þetta minnti svolítið á það.

Ég segi aftur: Ég man ekki eftir því að ráðherra hafi komið í þennan sal, ráðherra sem ég hélt að hefði það að markmiði að veita upplýsingar og skýra mál sitt, jafn fátæklega búinn málefnalega og þessi ágæti hæstv. ráðherra sem hér er kominn aftur í salinn.

Ég veit ekki hvort þetta breytist eitthvað í seinni hálfleik. Ég ætla að vona það. En hingað til hefur innlegg hæstv. ráðherra í þennan fund okkar með honum einkennst af lítt duldum fúkyrðum og hofmóði. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni verður þessi fundur, sem ég hélt að yrði kannski til þess að skerpa skilning manna á milli, ekki til þess að flýta för þessa máls í gegnum þetta þing. Það er alveg dagljóst, því miður. Því að það ríður á að mál af þessari stærðargráðu, mál af þessu innihaldi, afgreiðist út úr Alþingi Íslendinga í sátt stjórnmálaflokka, í sátt við þjóðina, sem er að meiri hluta til á móti þessu máli eins og það er búið nú, í sátt við alþýðusamtökin sem eru á móti þessu máli, í sátt við verkalýðsforingja sem eru á móti þessu máli, í sátt við heimilin sem eru á móti þessu máli. (Forseti hringir.)

Eftir þennan fund er ég ekki bjartsýnn á að það muni takast. Því miður.