149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Kannski á ég að virða hæstv. ráðherra það til vorkunnar að hann er búinn að vera í útlöndum meðan á þessari umræðu okkar hér hefur staðið. Hugsanlega hefur hann fengið einhverjar frásagnir af umræðunni eftir misvitrum blaðamönnum sem litið hafa á umræður okkar um þetta mál sem eitthvert flipp og rugl. Menn halda að við, Miðflokksfólkið, höfum staðið hér nætur og daga af því bara. Það er misskilningur.

Ég man ekki eftir því á mínum tíma á Alþingi að hafa fengið jafn mikil viðbrögð við nokkru sem ég hef tekið þátt í að gera hér á Alþingi. Kveðjurnar, hvatningin, að fólk skuli vera á pöllum heilu sólarhringana. Ég man ekki eftir slíku áður. Það sýnir okkur hversu mikilvægt þetta mál er, hvað það er mikilvægt mörgum, hvað það hefur áhrif á marga. Menn eiga ekki að láta sér það í léttu rúmi liggja og keyra slíkt mál, þó að þeir hafi afl til þess, í gegnum þingið með þeim hætti sem búið er að reyna.

Það er að vísu búið að tefja aðeins fyrir því en ég sé ekki að nokkuð sé slegið af. Menn láta bara eins og þeir séu að keyra í gegnum skafl, þeir bakka aðeins frá og koma aftur til baka. Það á að keyra þetta mál þannig í gegn. Það er miður.

Að þessu máli samþykktu, með þeim hætti sem það er búið núna, mun myndast meiri óánægja í þessu landi með EES-samninginn sjálfan. Það er ekki það sem neinn vill. (Forseti hringir.) Það er ekki það sem við viljum sem erum búnir að standa hér nætur og daga til að reyna að dýpka þetta mál og gera það skiljanlegra.

Síðan kemur ráðherra með þessi skilaboð.