149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um að fara frjálslega með sannleikann. Ég nefndi ekki norska peninga. Ég nefndi norska aðila. Ef hv. þingmaður myndi hlusta á það sem hér fer fram þá hefði hann heyrt þegar ég las orðrétt upp úr frétt norskra fjölmiðla þar sem forystumaður Nei til EU fór yfir það að hann hefði haft samband við íslenska aðila. Ef hann trúir því ekki þá getur hann sömuleiðis kannað það hvað þessir aðilar hafi gert vegna þess að þetta hefur verið í íslenskum fjölmiðlum, hefur ekki farið fram hjá neinum. Og ég segi enn og aftur: Þessir aðilar eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni.

Og að tala um einhverja grundvallarbreytingu á íslenskri utanríkisstefnu. Þetta stenst enga skoðun. Það er útilokað að aðili sem hefur kynnt sér efni máls geti komist að þessari niðurstöðu.

Hér kemur hv. þingmaður og kallar það fréttatilkynningu, gagn sem var sent á alla þingmenn þar sem fræðimennirnir voru að leiðrétta þann misskilning sem var í umræðunni, og var nákvæmlega eins og er núna. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá leyfi til að lesa þetta upp aftur, því að hv. þingmaður taldi mig ekki tala nógu hátt. Ég ætla að biðja um orðið til að lesa þetta aftur. (Gripið fram í.) Hér er alls ekkert um það að ræða að við séum að veita aðgang að auðlindum. Það er svo langur, langur, langur vegur frá.

Ég sé engan annan kost en að lesa aftur upp áréttinguna sem kom frá fræðimönnunum, sem hér er vísað til og þeir túlkaðir út og suður, eftir umræðuna sem var í þinginu. Þar útskýra þeir sín sjónarmið. Ég bið virðulegan forseta um (Forseti hringir.) að fá að komast að til að geta lesið þetta aftur upp.

(Forseti (BN): Hæstv. ráðherra getur lesið það upp í síðara andsvari.)