149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef bara skamman tíma. Ég hvet hæstv. ráðherra til að svara því hvaða aðilar það eru hér á landi sem hann telur ganga erinda norska Miðflokksins og Nei til EU og líka að hann skýri af hverju hann tekur það upp á Alþingi í umræðum um þetta mál.

Númer tvö vil ég segja við hæstv. ráðherra að það stendur í álitsgerð frá hans eigin lögfræðilegu ráðunautum sem hann sjálfur kallaði til starfa, að innleiðing á þessum orkupakka, sér í lagi reglugerð 713/2009, muni leiða af sér að erlendar stofnanir muni fá a.m.k., eins og það er orðað — þetta er orðrétt. hæstv. ráðherra — „a.m.k. óbein áhrif“ á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra orkuauðlinda þjóðarinnar. Þetta er í álitsgerð sem lögfræðilegir ráðunautar utanríkisráðherra lögðu fyrir hann.

Þessum stóru spurningum er ósvarað. Af hverju er hæstv. ráðherra að beita sér fyrir grundvallarbreytingu á utanríkisstefnu þar sem aðgangur að auðlindum á að koma í staðinn fyrir aðgang að markaði, í staðinn fyrir gagnkvæman samning um aðgang að markaði? (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra verður sömuleiðis að útskýra af hverju hann er að beita sér hér fyrir máli sem mun hafa þær afleiðingar sem hans eigin lögfræðilegu ráðunautar hafa stafað ofan í mannskapinn í sinni álitsgerð.