149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Nú hvet ég hv. þingmann til að hlusta. Fyrst vegna Norðmannanna, norsku Miðflokksmannanna og Nei til EU. Ég sagði: Þeir hafa verið að beita sér í þessu máli til að hafa áhrif á niðurstöðuna. Það er öllum ljóst sem það vilja vita að það hefur verið í gangi og hefur ekki verið neitt leyndarmál fram til þessa. Og ég segi: Þessir aðilar eru ekki að hugsa um hag íslensku þjóðarinnar.

Hv. þingmaður vísar í fræðimennina Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst, þ.e. hans túlkun á áliti þeirra. (Gripið fram í.) Og nú hvet ég hv. þingmann — já, túlkun — til að hlusta. Ég ætla að tala frekar hátt vegna þess að hv. þingmaður ber það jafnvel við að hann heyri ekki vel og það er auðvitað ekki gott. (Gripið fram í.) Þetta er sent, virðulegi forseti, eftir fyrri umr. Ég ætla að lesa það sem hér kemur fram, bæði innganginn og sömuleiðis bréf þessara fræðimanna:

Í gærkvöld lauk á Alþingi fyrri umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn. Með þingsályktunartillögunni heimilar Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakka í EES-samninginn. Vegna sjónarmiða sem sett voru fram í umræðunni óskaði utanríkisráðherra frekari skýringa frá sérfræðingum sem unnu álitsgerðir sem fylgja þingsályktunartillögunni. Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur árétta eftirfarandi af þessu tilefni í bréfi til utanríkisráðherra:

„1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.

2. Þeir ágallar sem við teljum vera á þessari leið lúta eingöngu að því hvort upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti verði tilefni til athugunar af hálfu ESA, þ.e. hvort innleiðing gerðarinnar standist þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt EES samningnum.

3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd.

b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á.

c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna.

d. Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.

e. Yfirlýsing orkumálastjóra ESB um að framangreindar reglur gildi ekki og hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi, í ljósi þess að Ísland er ekki tengt innri orkumarkaði ESB, dregur að okkar mati mjög úr líkunum á því að ESA geri athugasemdir við innleiðinguna. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu þá hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi.

4. Í áliti okkar lögðum við einnig til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu. Þessi leið hefur þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni felast ekki þeir lögfræðilegu óvissuþættir sem að ofan er lýst.

5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.“

Í kjölfarið, virðulegur forseti, af því að menn hafa rætt þessa leið, fengum við álit bæði frá innlendum aðila og erlendum aðila eins og hv. þingmanni og virðulegum forseta er fullkomlega kunnugt um.

Ég hvet, virðulegi forseti, hv. þingmann til þess að taka mið af þessari áréttingu þegar hv. þingmaður túlkar sjónarmið fræðimannanna. Þessi árétting er frá fræðimönnunum út af þeirri umræðu sem var hér hjá ákveðnum þingmönnum, sem er nákvæmlega eins og umræðan er núna. Ef hv. þingmaður er á móti orkupakkanum þá verður hann að koma með einhver önnur rök en að vitna í þessa ágætu fræðimenn sem hér taka af allan vafa um hver þeirra afstaða er til málsins og þeirrar innleiðingar sem lagt er upp með.

Og reyndar er það svo, virðulegi forseti, að þeir árétta sérstaklega, sem var að vísu löngu komið fram en menn hafa af einhverjum ástæðum ekki viljað kannast við, í upphafi:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Þar kemur akkúrat að því að hv. þingmaður er alltaf að vitna í einstaka setningar úr álitsgerðinni. Ég að vísu skil ekki hvernig hv. þingmaður gat komist að þeirri niðurstöðu ef hann fór í gegnum alla álitsgerðina, að vísa samhengislaust í þá þætti, en það er annað mál. Það liggur alveg fyrir að út af þessari umræðu kemur þessi árétting og hún er alveg skýr.

Hv. þingmaður getur ekki komið hérna fram og látið eins og álitsgerðin sé ekki til og þessi árétting sé ekki til. Hv. þingmaður getur það ekki. Hann getur ekki komið hérna aftur og aftur og aftur og aftur og látið eins og þessi sérstaka árétting sé ekki til staðar, því hún er skýr. Ég er búinn að lesa hana núna tvisvar. Ég held að enginn geti ásakað mig um að mér liggi lágt rómur núna. En þetta er fyrir alla. Þetta er formlegt gagn sem var sent á alla þingmenn og ekki bara það, þetta er sömuleiðis fyrir allan almenning. Það er ekki hægt að ræða þetta mál án þess að vísa til hins augljósa: Ef einhver gat misskilið álitsgerðina þá kom sérstök árétting fram frá þeim fræðimönnum sem hér er helst vísað til.