149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum búin að gera er að kalla til helstu fræðimenn á þessu sviði. Hv. þingmaður, eins og ég skil hann, er að láta að því liggja að einhver geti hugsanlega farið fram á það að íslenska ríkið leyfi lagningu sæstrengs eða jafnvel leggi sæstreng. Það er enginn fræðimaður sem heldur því fram. Það er algjörlega skýrt að það er ákvörðun okkar Íslendinga.

Við erum búin að vera með EES-samninginn í langan tíma og margir hafa haft áhuga á því að leggja vegi og strengi og allt milli himins og jarðar og það hefur enginn getað farið í mál við okkur á grundvelli EES-samningsins og farið fram á það að við myndum gera einhverja slíka hluti. Ef ég og hv. þingmaður viljum leggja hálendisveg, sem ég vil að vísu alls ekki gera, og við fáum ekki leyfi til þess, fáum ekki að gera eitthvað slíkt, þá getum við ekkert farið í mál út af því að við séum í EES.