149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvert hv. þingmaður er að fara þegar hann vísvitandi fer aftur og aftur rangt með. Að halda því fram að við séum að veita aðgang að auðlindum í staðinn fyrir einhvern markaðsaðgang er algerlega fráleitt. (ÓÍ: Þeir segja það.) Hv. þingmaður kallar aftur fram í. Þeir segja þetta, eftir að þeir eru búnir að koma með sérstaka áréttingu, virðulegi forseti, m.a. út af orðum manna eins og hv. þm. Ólafs Ísleifssonar. (ÓÍ: Hún lýtur ekki að þessum þætti málsins.) Hún lýtur nákvæmlega þessum þætti málsins vegna þess að það var út af því sem þeir höfðu áhyggjur af stjórnarskránni. Hv. þingmaður hlýtur að sjá það ef hann hefur lesið álitsgerð þeirra, sem er mjög góð. Þeir eru, eins og þeir orða það sjálfir, íhaldssamastir hvað þetta varðar. Aðrir fræðimenn voru ósammála, töldu að innleiðingin myndi samræmast að fullu.

Enginn heldur því fram, virðulegi forseti, enginn fræðimaður að við séum að missa einhver tök á okkar auðlindum, ekki nokkur. Ef hv. þingmaður ætlar að endurtaka rangfærslurnar aftur og aftur þá verður hann að eiga það við sig.