149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að svara skætingi og útúrsnúningi hæstv. ráðherra heldur freista þess að fá svar við eins og einni spurningu. Ég mun hins vegar svara dellunni í honum á eftir í ræðu.

Hæstv. ráðherra hefur enn ekki svarað því hvers vegna hann valdi lakari leiðina af þeim sem þeir fræðimenn sem margnefndir eru lögðu til. Hann hefur heldur ekki svarað því hvort hann hyggist fara lakari leiðina, þó með þeim hætti sem þessir fræðimenn sögðu að þyrfti að gerast. Þeir voru mjög afdráttarlausir um það að hún myndi ekki virka gagnvart stjórnarskránni nema hún fæli í sér lagalegan fyrirvara sem þýddi að stjórnvöld myndu ekki innleiða, með öðrum orðum, þau væri að fresta vandanum, fresta spurningunni um stjórnarskrána. Þessir sömu fræðimenn sögðust ekki hafa séð þennan fyrirvara, hann þyrfti að vera þess eðlis að ríkisstjórnin myndi ekki innleiða hann. Það sem ríkisstjórnin er hins vegar að gera er að innleiða að fullu með einhverri athugasemd um að hún vilji gjarnan að þetta gildi ekki.