149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek það svo að hæstv. utanríkisráðherra hafi yfirgefið vettvang.

(Forseti (SJS): Utanríkisráðherra var hér í um þrjár og hálfa klukkustund (Gripið fram í.) og tók virkan þátt í umræðum. Hann hafði skyldum að gegna í dag og varð að gera talsverðar tilfæringar til að verða við óskum þingmanna um að koma og vera við umræðuna fram að kvöldmatarhléi. En hann hefur skyldum að gegna, það er rétt.)

Bara svo það sé á hreinu. Takk fyrir kærlega.

Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þessa ræðu. Ég hef svipaðar áhyggjur vegna þess að málflutningur hæstv. utanríkisráðherra áðan varð mér mikil vonbrigði. Það kom mér eiginlega mikið á óvart hvað hann vissi lítið um þetta mál. Hann virtist ekki gera sér grein fyrir alvarleika málsins.

Þess vegna langar mig til að fara aðeins yfir með hv. þingmanninum hættuna á því að innleiðing eins og hún er núna og lítur út samkvæmt málinu sem við erum með fyrir framan okkur klúðrist þannig að við getum skapað okkur skaðabótaskyldu þegar fram líða stundir af því hvað málið er vanreifað og af því hvernig það er fært fram. Þar er ég fyrst og fremst að tala um týndu fyrirvarana sem enginn veit um og sem hefur verið sagt af ýmsum að séu ekki pappírsins virði og muni ekki halda nokkurs staðar fyrir nokkrum rétti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hver hans skoðun sé á þessu, hvort þarna sé um verulega hættu að ræða sem gæti jafnvel kostað ríkissjóð inn í framtíðina töluvert fé. Hvað segir hv. þingmaður um það?