149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það er rétt, stutt heimsókn hæstv. utanríkisráðherra eyddi engri óvissu, en það sem er verra er að þessi heimsókn jók á óvissuna að ýmsu leyti. Að mestu leyti fjallaði ráðherrann reyndar bara um gömlu talpunktana sína, las þá upp.

En eitt af atriðunum sem ekki var svarað — þeim var reyndar fæstum svarað, spurningum okkar — sneri að því sem hv. þingmaður nefndi, möguleikann á því að sóttar séu skaðabætur fyrir að við höfum ekki innleitt með réttum hætti eða sóttar skaðabætur á grundvelli innleiðingarinnar eins og hún hefði átt sér stað með réttum hætti.

Það hefur verið nefnt í umræðunni, hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það og mér heyrðist hann nú viðurkenna það, að ákveðin hætta sé á því að ESA sjái ástæðu til að höfða samningsbrotamál gegn íslenskum stjórnvöldum vegna þessarar sérkennilegu aðferðar við innleiðingu; og þá á þeim forsendum að í raun hafi menn innleitt pakkann í heild og þurfi að haga sér í samræmi við það. Það er eitt.

En hitt er að sá möguleiki sé er fyrir hendi, sem mér heyrist hv. þingmaður hafa áhyggjur af — ég hef alla vega áhyggjur af honum — að burt séð frá því hvort ESA eða ESB höfða slíkt mál, gætu einkaaðilar tekið upp á því að höfða mál á þeim grundvelli að í raun sé búið að innleiða orkupakka þrjú að fullu, enda ekki heimilt að fara fram á einhliða fyrirvara.