149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:48]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni góða ræðu. Varðandi þessa fyrirvara náði ég ekki að fylgjast með umræðunni sem fór hér fram áðan við hæstv. utanríkisráðherra nema með öðru eyranu en það er unnið að því núna að rita upp ræður hans og ég mun fara í þær ítarlega á eftir og þá einkum í samhengi við tilskipun nr. 72/2009, með tilliti til reglugerðar 713 sem er hluti af tilskipuninni.

Það er mér hugleikið hvernig hæstv. utanríkisráðherra virðist fá það út í ræðum sínum í fyrri umræðu um þessa tilteknu þingsályktunartillögu að það sé í raun svo að við getum gert fyrirvara einhliða. Mér sýnist það einboðið að við það að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum með þingsályktuninni taki tilskipunin gildi og þar með innleiðing þriðja orkupakkans í heild. Það er skýrt ákvæði um að þegar stjórnskipulega fyrirvaranum er aflétt öðlast tilskipunin lagalegt gildi í landsrétti og við það erum við bundin þjóðarétti sem gengur landsrétti framar.

Þar af leiðandi spyr ég: Fyrirvarar sem settir eru í landsrétt en skuldbinda okkur ekki að þjóðarétti, geta þeir haldið lagalega séð?