149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það er alveg á hreinu að það er engin heimild til þess að setja einhliða fyrirvara í EES-samningnum. Það er líka alveg á hreinu, eins og hv. þingmaður nefndi, að þegar menn innleiða þá innleiða þeir að fullu, að frátöldum þeim atriðum sem veittar hafa verið sérstakar undanþágur fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni.

Það sem einhverjir fræðimenn hafa bent á er að hugsanlega geti ráðherrann komist með fyrirvara hjá því að innleiðingin taki gildi. En það er þá háð því — og þetta er algjört grundvallaratriði sem hæstv. utanríkisráðherra einhverra hluta vegna lítur fram hjá — að fyrirvararnir séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir innleiðingu. Með öðrum orðum að innleiðingu sé frestað. Fyrirvararnir þurfa að segja að innleiðing eigi sér ekki stað. Með því geta menn hugsanlega frestað vandanum. Það getur svo hugsanlega kallað á viðbrögð af hálfu ESA sem telji að ekki sé heimild til að fresta innleiðingunni.

Að minnsta kosti er það þannig að eigi einhver fyrirvari að eiga séns, eitthvað í ætt við það sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin lýsa, verður hann að vera þess eðlis að innleiðingin taki ekki gildi, rétt eins og til að mynda dagsetningarákvæði við lagasetningu þýðir að lögin taka ekki gildi fyrr en á tilteknum degi. Í þessu tilviki þyrfti lagalegi fyrirvarinn að vera þannig að innleiðing ætti sér ekki stað fyrr en eitthvað tiltekið gerðist. En það er ekki sú leið sem verið er að fara.