149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var einkar snjöll ábending. Ég vona að hv. þingmaður taki þetta betur fyrir í sérstakri ræðu vegna þess að ég hafði ekki alveg áttað mig á þessum fleti málsins. Það sem hann sagði í aðdragandanum er hins vegar staðreynd. Það er augljóst að þetta hefur ekki lagalegt gildi. Hugsanlega mætti nýta það sem lögskýringargagn en það hefur ekkert gildi að þjóðarétti.

Þetta er enn ein áminningin um það sem ég nefndi aðeins stuttlega áðan. Það hvernig þessar yfirlýsingar eru orðaðar er allt til þess ætlað, að því er manni virðist, að menn geti talað sig út úr því síðar. Menn passa sig á því að taka það fram að þetta hafi ekki formlegt, lagalegt gildi en vísa svo í að þetta geti nýst, líklega með þeim hætti sem hv. þingmaður nefndi en þó með þeim ágöllum sem hann bendir á og mér þótti mjög áhugavert.

Þetta er enn eitt skiptið sem einhver nýr flötur kemur upp í þessu og við erum smátt og smátt að taka fleiri og fleiri lög af þessu máli og komast nær kjarnanum.

Ef við færum okkur aðeins aftur frá leitinni að innsta kjarna þessa máls og lítum á stóru myndina blasir það við að það er einhver ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin treysta sér ekki til að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ef þau tryðu því raunverulega að eitthvert hald væri í þessum fyrirvörum, eitthvert gildi, væri ekkert því til fyrirstöðu að fá það afgreitt með þeim hætti í sameiginlegu EES-nefndinni, með formlegum og bindandi hætti. En það vilja menn ekki gera. Hvers vegna er það? Ég hef ákveðnar kenningar um það en það er a.m.k. ljóst að menn velja viljandi lakari leið.