149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er í rauninni bara enn eitt dæmið um tilraunir til að draga einhverjar kanínur upp úr hatti til að réttlæta innleiðingu þriðja orkupakkans. Það að sjá í fyrsta lagi ástæðu til að senda frá sér einhvers konar fréttatilkynningu um að orkumálastjóri Evrópusambandsins sé sammála utanríkisráðherra Íslands um að landið er eyja og ekkert tengt með sæstreng, sýnir að eitthvað vantar upp á innihaldsríka röksemdafærslu.

En þegar menn sjá ástæðu til að fara að undirstrika að slíkt samtal hafi átt sér stað er það auðvitað enn frekari áminning um að betri raka sé líklega ekki að vænta.

Þetta er á margan hátt eðlislíkt þeim vandræðum sem við höfum staðið frammi fyrir við leitina að fyrirvörunum. Að vísu hefur það sem hv. þingmaður nefnir verið nefnt sem ein tilgáta um hver fyrirvararinn kunni að vera. En ástæðan fyrir því að erfitt hefur reynst að finna fyrirvarann, koma á hann auga, er einmitt sú að gerðar hafa verið svo margar tilraunir til að draga kanínu upp úr hatti; með breytingum á raforkulögum, sem fela í að setja inn grein sem er í rauninni þegar til staðar, með einhverjum athugasemdum í greinargerð, sem lýsa í rauninni bara vilja þingsins o.s.frv.

Allt ber þetta að sama brunni, verið er að leita að einhverjum leiðum til að rökstyðja að þetta sé allt í lagi. Og þó að við ætlum að innleiða tilskipunina hafi það engin veruleg áhrif.