149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ef til vill geta menn nefnt þetta í málaferlum, kunni þau að rísa, en það hefur mjög takmarkað vægi þar og í ljósi þess að slík málaferli yrðu byggð á alþjóðarétti hefði það í raun enga þýðingu.

En það orðalag sem hv. þingmaður spurði sérstaklega út í úr þessari undirstrikuðu, sameiginlegu yfirlýsingu, um að menn verði að viðurkenna sérstöðu Íslands, er bara lýsing á fyrirliggjandi staðreyndum, ekki lýsing á því að Ísland fái einhverja tiltekna lagalega sérstöðu í formi undanþágna. Þetta er, eins og hv. þingmaður nefndi, eingöngu lýsing á þeirri staðreynd að Ísland er eyja og að ekki sé tenging til staðar. Og á meðan ekki sé tenging til staðar hafi þau ákvæði sem varða tengingu, væri hún komin, ekkert að segja.

Það má kannski segja að það sé ákveðin sérstaða Íslands að vera eyja í þessu EES-samstarfi, en þó ekki alveg. Eyjarnar eru fleiri og einhverjar þeirra eru ekki tengdar með sæstreng.

Í því ljósi er mjög áhugavert að líta til Kýpur sem nýtur þá þeirrar sömu sérstöðu og þarna er lýst. En nú stendur einmitt til að tengja Kýpur með sæstreng. Þá mun Kýpur væntanlega missa þessa sérstöðu.

Hvernig gerist það? Það gerist undir handleiðslu ACER, sameiginlegu orkumálastofnunar Evrópusambandsins, sem vinnur að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að sú tenging eigi sér stað. (Forseti hringir.) Og þar fer þá sérstaðan.