149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki svarað spurningunni fyrr um frestunina. Frestunarárátta er náttúrlega aldrei góð og það er aldrei gott að fresta vandamálum og ýta þeim á undan sér. Það er aldrei gott að vera með þvílíka ákvörðunarfælni að maður geti ekki tekið á málum strax.

Talandi um að vera í lest og ákveða hvert maður er að fara þegar hún er farin af stað þá fannst mér þetta eiginlega líkjast meira því að vera á vörubíl og keyra inn í þrönga einstefnuakstursgötu og þurfa svo jafnvel að bakka út speglalaus. Það er ekki gott. Ég hef prófað það, það er ekki mjög góð leið.

Í þessu tilfelli eru menn að leggja upp í óvissuferð, ekki vitandi hvort málið stenst stjórnarskrá Íslands en vitandi að áður óþekkt valdframsal felst í gjörningnum. Samt ætla menn að leggja í þessa leið og þeir vita að þeir geta ekki bakkað út speglalausir til baka aftur. Búið er að skuldbinda þjóðina á þann hátt að það verður ekki losað nema að segja öllum EES-samningnum upp, sem ég held að enginn hafi áhuga á að gera, þó að einhverjir, og þar á meðal við, hafi sagt að það sé sjálfsagt að endurskoða hann af því að hann er jú kominn til ára sinna og Ísland er ekki sama Ísland eða Evrópa er langt því frá sama Evrópa og hún var.

Þetta er eiginlega furðuleg bíræfni. Hver er farangurinn í þessari óvissuferð? Farangurinn er auðlindir Íslands, fjöregg þjóðarinnar. Samt eru menn tilbúnir til að leggja upp í þennan leiðangur, vitandi ekki í raun og veru hver áfangastaðurinn er. (Forseti hringir.) Það þykir mér bíræfið.