149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eitt í sambandi við þessa 21. gr. og þann texta sem ég las frá lögmanninum Eyjólfi Ármannssyni — en hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir því að samþykki Alþingis skuli koma til ef þarf að gera breytingu á 21. gr. stjórnarskrárinnar — er að lögmaðurinn bætir við, með leyfi forseta:

„Augljóst er að þegar um helstu náttúruauðlind þjóðarinnar er að ræða ber að leita samþykkis þjóðarinnar.“

Þarna segir þessi ágæti lögmaður skýrt og skorinort: Þetta mál er svo stórt að það á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan segir hann þetta sem kemur fram í samantektinni á bls. 1 en á bls. 4 segir hann í framhaldi af þessu, með leyfi forseta:

„Alþingi á að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Fyrir Ísland er slíkur ótti í EES-samstarfinu hættulegur.“

Ef menn hafa ekki kjark til þess að ganga brautina og ýta þessu til baka í sameiginlegu nefndina samkvæmt 102. gr. og fleiri greinum í EES-samningnum er það hættulegt. Það er hættulegt fyrir Ísland. Hann segir: Óttinn er hættulegur. Það að bregðast ekki við og nýta allan samninginn, eins og (Forseti hringir.) við höfum reyndar talað um hér undanfarin dægur, er hættulegt.