149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég er nýbúinn að fara yfir ákveðin atriði í þingsályktunartillögunni í andsvari við hv. þm. Þorstein Sæmundsson. Þar er vísað til beitingar 103. gr. EES-samningsins. Nú langar mig til að tengja fyrir fólk tillöguna við 103. gr. EES-samningsins sem við erum bundin að fylgja að þjóðarétti. Það virðist þvælast eitthvað fyrir mönnum að í 103. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar“ — sem er innleiðing þriðja orkupakkans, þ.e. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar — „getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni …“

Hvenær, hæstv. forseti, skal þessi tilskipun ganga í gildi? Hér segir að hún gangi í gildi á þeim degi sem getið er í henni, ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt. Stjórnskipuleg skilyrði verða hér ekki uppfyllt nema annars vegar með breytingu á stjórnarskránni eða á hinn veginn, að í þingsályktunartillögunni sé dagsetning sem kveður á um það hvenær við ætlum að aflétta.

„Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.“

Þetta mál er augljóslega svo illa unnið að það er alveg með ólíkindum. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það. Það er ástæðan fyrir því að fræðimenn hafa bent á þennan vanda. Það er ekkert að ástæðulausu að áhöld eru um hvort þetta geti gengið í gegn.

Með leyfi forseta, þá segir í 2. mgr. 103. gr.:

„Hafi tilkynningin ekki átt sér stað sex mánuðum eftir að sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun sína skal ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda til bráðabirgða meðan stjórnskipulegum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt …“

Það á við um okkur í þessu tilfelli, hún gildir til bráðabirgða þar til hinum stjórnskipulega fyrirvara hefur verið fullnægt. Honum hefur ekki verið fullnægt fyrr en Alþingi hefur raunverulega heimilað hæstv. utanríkisráðherra að innleiða gerðina fyrir hönd íslenska ríkisins, nema, eins og segir hér, samningsaðili tilkynni um slíkt og gildistaka til bráðabirgða geti ekki átt sér stað.

Með leyfi herra forseta:

„Í síðara tilvikinu, eða tilkynni samningsaðili að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafi ekki hlotið samþykki, skal frestunin sem kveðið er á um í 5. mgr. 102. gr. ganga í gildi einum mánuði eftir að tilkynningin fer fram en þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu.“

Sem hún hefur gert. Þriðji orkupakkinn hefur verið innleiddur að fullu í bandalaginu, er í fullu gildi þar.

Herra forseti. Þetta er afskaplega skýrt. Þetta er í þingsályktunartillögunni, en tilraunin hér til að innleiða gerðina að fullu og ætla svo að setja fyrirvara — það er nánast alveg sama hver þessi lagalegi fyrirvari er, hann verður ekki gerður nema annaðhvort með því að breyta stjórnarskrá eða fara með málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna þess að stjórnskipulegi fyrirvarinn snýst um það að innleiðing þessarar gerðar brýtur í bága við stjórnarskrána. Það er sagt berum orðum í þingsályktunartillögunni. Hann varðar við 21. gr. Það er ástæða þess að þingsályktunartillagan er komin fram. Annars hefði þetta verið innleitt eins og aðrar reglugerðir.

Er til of mikils mælst, herra forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sé hér til svara og skýri mál sitt þegar hann vísar í sameiginlegar yfirlýsingar? Hann hefur ekki komið hér og tilkynnt okkur um dagsetninguna sem á að fylgja. Hún er bara ekki til staðar, herra forseti.

Mér þykir mjög leiðinlegt að maður þurfi hreinlega að tyggja orðin upp úr gögnum þingsins sem lögð eru til grundvallar þannig að þingmenn geti samþykkt þetta til þess að reyna að fá einhverja niðurstöðu. Svo eru menn hissa á því að við (Forseti hringir.) stöndum hér og höldum umræðunni áfram. En það er enginn til svara sem ber ábyrgð (Forseti hringir.) á málinu.