149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og margsinnis hefur komið fram þá veldur það bæði ugg og áhyggjum og vonbrigðum hversu illa þetta mál er útbúið og framsett. Við höfum beðið um það í mikilli einlægni að málinu verði frestað til hausts. Nú sé ég að í hliðarsal sitja tveir ágætir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hitta örugglega hæstv. utanríkisráðherra yfir kaffibolla og köku á morgun þegar Sjálfstæðisflokkurinn á afmæli, til hamingju með það, 90 ár, og geta þá kannski komið á framfæri við hann þeim skilaboðum að það er satt að segja alveg skelfilegt að það eigi að troða þessu máli svona vanbúnu í gegnum þingið. Nú veit ég ekki hvort þessir tveir heiðursmenn sem sitja hér í hliðarsal séu með alla þessa hluti á hreinu sem eru að bögglast fyrir okkur. Mér þætti vænt um ef þeir kæmu hérna inn og segðu okkur af því hvort þeir séu alveg áhyggjulausir yfir þessum vandkvæðum sem við höfum þegar bent á hér æ ofan í æ, (Gripið fram í.) bæði um stjórnskipulegan fyrirvara og ýmislegt annað. — Það er fundið að því að ég tók eftir nærveru þessara ágætu manna, en ég vona að það trufli ekki hv. þingmann sem ég er í andsvari við.

Herra forseti. Það kjarnast alltaf meira og meira eftir því sem við ræðum þetta mál frekar að það er skelfilega illa unnið. Það er alveg sama hvaða varnaðarorð eru höfð uppi, menn bara yppa öxlum. (Forseti hringir.) Ég get ekki yppt öxlum yfir framtíð barna minna og barnabarna. Ég bara get það ekki. Ég skil ekki þessa afstöðu, herra forseti.