149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel mig hafa leitt hér út á nokkuð skýran hátt í ræðu minni um hvað er að ræða, en það getur vel verið að ég þurfi að fara í þetta einn gang eða tvo til viðbótar svo skiljist. Þar sem ég veit að hæstv. utanríkisráðherra, sem ég hef kallað eftir að komi í hús, er ekki á staðnum þá kalla ég eftir því að hæstv. forseti hlutist til um það að hv. þingmaður sem gegnir starfi formennsku utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem er hér í húsi, komi hér og útskýri fyrir okkur málið þar sem hún er talsmaður þess.

Herra forseti, með leyfi, segir hún í ræðu sinni í síðari umr. frá 14. maí 2019:

„Þessi skilningur var áréttaður í sameiginlegri yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Miguels Arias Cañetes, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, frá 20. mars sl. Í yfirlýsingunni kom fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka Evrópusambandsins hefðu engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar Evrópusambandsins lægi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.“

Það gerir það að svo stöddu en eftir innleiðinguna ekki. Það er alveg rétt. Þessar yfirlýsingar eru ekki orðaður af handahófi, herra forseti. Það er nú svo. Ég held að þessir sendiherrar og erindrekar og kommissarar Evrópubandalagsins hafi ekki nagað sig upp þann valdastiga sem þar er fyrir það að vera kjánar. Það er langur vegur frá.

Ég óska eftir því að herra forseti hlutist til um það að fyrirsvarsmenn málsins og ábyrgðaraðilar þess skýri þetta. Ef sá sem er ábyrgur fyrir málaflokknum, hæstv. utanríkisráðherra, getur ekki komið hér, komi flutningsmaður málsins og skýri orð sín í þessari ræðu með tilliti til þess sem ég hef lagt fram um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þingsályktunartillöguna sem liggur fyrir og er til umræðu á fundi þessum og hefur verið um nokkurt skeið.