149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:46]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég gef mér að hér sé verið að vitna í þingsályktunartillöguna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.“

Þetta þýðir alveg skýrt og klárt verði látið reyna á slíkt fyrir dómi og verði kominn sæstrengur hér, að það er rétt að meðan hann er ekki til staðar þá á hann ekki við, en þegar hann er til staðar þá á þetta við. Innleiðingin hefur á þeim tímapunkti átt sér stað. Hún er orðin þjóðaréttur og við erum bundin af þjóðarétti. Það getur ekki verið neitt skýrara.

Ég verð að segja, herra forseti, að fleiri þingmenn hafa talað á svipaðan hátt og hv. þingmaður sem ég vitnaði í áðan. Ég geri þá kröfu að þeir þingmenn komi hingað og skýri orð sín vegna þess að í ræðum þeirra sem voru fluttar hér í upphafi síðari umr. fullyrtu menn hluti hér í ræðustól sem standast hreinlega ekki og kallast ekki á við þingsályktunartillöguna og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og reglugerðir sem fylgja tilskipun nr. 72/2009.