149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég dreg fram þessa setningu úr einum hinna svokölluðu fyrirvara, að ákvæði sem varða tengivirki yfir landamæri komi ekki til framkvæmda, að þetta skuli orðast svo í stað þess að segja að ákvæðin taki ekki gildi, er einmitt sú að þetta tekur gildi. En það sem menn eru að reyna að gefa til kynna hér er að þetta taki ekki gildi, en þeir nota ekki það orðalag af því að þeir vita að innleiðingin tekur gildi. Þess vegna er fyrirvarinn í rauninni bara lýsing á hinu augljósa, að það sem varðar tengivirki yfir landamæri komi ekki til framkvæmda á meðan ekki eru tengivirki yfir landamæri. Þetta er allt sama hringavitleysan.

Reyndar hafa sumir stjórnarliðar haldið því fram að fyrirvararnir hafi verið óþarfir. Þetta togast svolítið á í málflutningi þeirra, annars vegar séu þeir búnir að bjarga málinu, sem hafi að mati margra hv. þm. Sjálfstæðisflokksins verið stórvarasamt, en þeir hafi engar áhyggjur lengur vegna fyrirvaranna, en svo segja aðrir að fyrirvararnir hafi í rauninni verið óþarfir, það hafi ekki þurft að hafa fyrirvara.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í eru atriði sem ég gerði að umtalsefni áðan og ég vil gjarnan fá álit hv. þingmanns á því, af því að hann hefur sett sig betur inn í frumtextann en flestir. Það er sú staðreynd að Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst benda á að lagalegi fyrirvarinn þurfi að vera þess eðlis að innleiðingin taki ekki gildi.

En er ekki rétt skilið að hv. þingmaður hafi hér verið að (Forseti hringir.) leiða okkur það fyrir sjónir að það er ekki þannig? Innleiðingin mun (Forseti hringir.) taka gildi.