149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hann greip boltann greinilega á lofti og skilur málið vegna þess að það er ekki tilviljun að í áliti þessara ágætu tveggja fræðimanna, sem eru einmitt þeir fræðimenn sem voru til ráðslags við ríkisstjórnina þegar það álit var samið, segir á blaðsíðu 43 í 4. mgr., með leyfi forseta:

„Verði 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd“ — við þurfum nefnilega að fara með þetta aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina og semja um breytingu á þessari mynd — „mun reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda. […] Ekki eru fordæmi fyrir slíku valdframsali til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins.“

Hér hefur verið farið mjög ítarlega yfir að það séu einnig áhöld um að tveggja stoða kerfinu sé fullnægt með því að framselja þetta vald til ESA þar sem ESA heyrir undir ACER, Eftirlitsstofnun Evrópu, og tekur við valdboði frá þeim.

En eitt er alveg klárt varðandi Orkustofnun á Íslandi, eftir breytinguna og eftir innleiðinguna á tilskipun 72/2009, það stendur til á þessu þingi, og er á málalista þingsins, að samþykkja breytingu á lögum um Orkustofnun, þar sem við færum þá stofnun undan framkvæmdarvaldinu og gerum hana að ríki í ríkinu.

Ég verð að segja að það er alveg með ólíkindum að (Forseti hringir.) koma í ræðustól og hæla sér af því hversu vel allt er unnið og þurfa (Forseti hringir.) svo að tyggja þetta allt saman upp ofan í fólk til baka.