149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Andsvarafjöldi í þessari umræðu undanfarin dægur er í samræmi við þá venju sem verið hefur hér á Alþingi. Það er rétt að þessi umræða er orðin drykklöng en þrátt fyrir það ber á að líta að hún hefur ekki truflað þingstörf að því marki sem haldið hefur verið fram vegna þess einfaldlega að við erum að halda fundi á tíma þar sem þingfundir hefðu annars ekki verið, eins og í dag og í gær og á næturnar. Það hefur ekki truflað neina aðra starfsemi á vegum þingsins að við höfum fundað þessar nætur vegna þess að við sem höfum staðið í þessari umræðu höfum sinnt okkar störfum í nefndum, auk þess að vera hér kvöld og nætur í umræðunni. Þessi fjöldi andsvara er í fullu samræmi við þá venju sem hefur verið á Alþingi undanfarin ár.