149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:05]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um þetta: Þegar hæstv. utanríkisráðherra leggur fram þingsályktunartillögu þar sem segir berum orðum, á bls. 2–3, að stjórnskipulegur fyrirvari sé settur, þá er það svo að stjórnskipulegur fyrirvari er ekki settur við innleiðingu tilskipana nema að þær gangi í bága við stjórnarskrá Íslands, nr. 33/1944, og það er sérstaklega tiltekið í þingsályktunartillögunni að það sé ástæðan fyrir því, 21. gr. stjórnarskrárinnar (Gripið fram í: Þetta eru lög.)

Ég ætla að lesa hér fyrir hv. þingmann, sem kallar fram í ræðu mína:

„Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest.“

Í greinargerð hinna títtnefndu fræðimanna, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, segir með tilvísun í stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1974:

„Fyrir liggur ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn frá 5. maí 2017. Ákvörðunin er enn bundin stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands.“ — Vegna þessa hlutar.

Með leyfi forseta, ég skal reyna að vera fljótur:

„Verði þriðji orkupakkinn innleiddur hér á landi verður ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar falið vald til að taka ákvarðanir um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri verði slíkum grunnvirkjum á annað borð komið á fót hér á landi. Slíkar ákvarðanir ESA geta m.a. lotið að því hvernig flutningsgetu er úthlutað milli raforkufyrirtækja (Forseti hringir.) og notenda hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu, sem og fleiri atriðum er snerta grunnvirki yfir landamæri.“ — „Annars staðar á EES-svæðinu“, ACER tekur þær ákvarðanir.

Telur hv. þingmaður að ég sé á réttri leið hér?