149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurninguna. Svo að við höldum áfram með fyrirvarann, þ.e. hinn lagalega, þá segir í nefndarálitinu sem ég var að lesa upp, og ég held áfram með það, að þessi grunnvirki yfir landamæri verði ekki reist eða áætluð, með leyfi forseta:

„… nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.“

Þá spyr ég: Hvað reglugerðar? Reglugerðar Evrópusambandsins? Líklega, þó er ég ekki viss, og ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri koma ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Ætla menn sem sagt að bíða eftir að Evrópusambandið endurskoði þessa reglugerð, nr. 713/2009? Er það fyrirvarinn? Á ég að trúa því?

„Fari slík endurskoðun fram er það Alþingis að meta hvort innleiðingin samræmist stjórnarskránni.“

Þarna kemur rúsínan í pylsuendanum. Þá er það Alþingis að meta hvort innleiðingin samrýmist stjórnarskrá. Menn ætla sem sagt að innleiða reglugerðina, sem vafi er á um hvort samrýmist stjórnarskrá, en síðan á að meta löngu seinna hvort reglugerðin samrýmist stjórnarskránni. Þetta er algerlega óskiljanlegt. Þetta er komið í hring. Þetta er komið í þvílíka flækju, enda ekkert skrýtið að stjórnarliðar hafi orðið missaga hér margoft. Þetta er þvílíkur hringur. Það er ekki von að nokkur maður í stjórnarliðinu skilji þetta, en ég vona að þar séu líka sérfræðingar sem geti útskýrt þetta svo að það skiljist.