149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:11]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurningarnar. Ég var að ræða um þennan lagalega fyrirvara og hafði bent á hve það væri einkennilegt að ætla sér að bíða eftir endurskoðun á reglugerð Evrópusambandsins, nr. 713/2009, hvort það væri virkilega þar sem hundurinn lægi grafinn, að menn ætluðu að bíða eftir því. Við erum að innleiða hana núna, við erum ekki búin að innleiða hana. Ætla menn að bíða eftir því? Er það rétt skilið?

En ég ætla að halda áfram vegna þess að ég spurði hæstv. utanríkisráðherra um þennan lagalega fyrirvara og nefndi hvort reglugerð væri útgefin í Stjórnarráði Íslands, þ.e. reglugerð útgefin af iðnaðarráðherra, sem er auðvitað allt annað en reglugerð Evrópusambandsins — menn mega alls ekki rugla þessu tvennu saman, alls ekki. Það er eins og að bera saman vörubíl og Matchboxbíl. Hann svaraði því ekki og hann neitaði því ekki, að það væri reglugerð útgefin af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ég gef mér því að það gæti verið, við værum hugsanlega búin að finna þennan lagalega fyrirvara í þeirri reglugerð, enda stendur þar um fyrirvara í 3. gr. — þetta er reglugerð sem er ekki búið að gefa út, en ég hef fengið send drög að henni og ætla, með leyfi forseta, að lesa:

„Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.“

Kannski er þetta fyrirvarinn. Hann er kannski fundinn í reglugerð sem er gefin út hér uppi í Skuggahverfi, samin í ráðuneytinu og skutlað inn á skrifborð hæstv. ráðherra — ætlunin er að skrifa þar undir og þá er þar kominn lagalegur fyrirvari við innleiðingu á reglugerð Evrópusambandsins, 400–500 milljóna manna samfélags.