149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessar upplýsingar. Eitt af því sem við höfum verið að reyna að gera í þessari umræðu er að fá að heyra sjónarmið þeirra sem ætlast til að við samþykkjum þetta mál. Svo heyri ég á upplestri hv. þingmanns að það kunna að vera einhverjir í stjórnarliðinu sem gætu einfaldlega ætlað að fella það miðað við það sem haft var eftir hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Ekki væri síður gagnlegt að fá fram slík sjónarmið. Gallinn er bara sá að stjórnarliðar og fylgitungl þeirra mæta ekki til að gera grein fyrir máli sínu. Eina framlagið kemur sem einhver frammíköll úr hliðarsal, menn þora ekki einu sinni að koma í salinn til að tala sínu máli. Jú, svo koma einhverjar, ég vil ekki nota of sterkt orðalag, óviðurkvæmilegar yfirlýsingar í fjölmiðlum, nú síðast frá hv. formanni utanríkismálanefndar í þætti sem er nú kallaður skemmtiþáttur en gengur aðallega út á það að vinahópur hittist og rægir annað fólk.

Í ljósi þess að hv. þingmanni tókst þó að gefa okkur smáinnsýn í hver staðan var a.m.k. hjá einhverjum þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, getur hv. þingmaður velt upp leiðum til þess að við fáum þetta fólk til að tjá sig? Er eitthvað sem við getum gert fyrir þetta fólk svoleiðis að það komi og taki þátt í þessari umræðu? Ef við lofuðum til að mynda að vera mjög kurteis í andsvörum, eins og við höfum reyndar verið í þessari umræðu allri, eða ef við leyfðum fólki jafnvel bara að tala án andsvara ef það er hrætt við andsvör. (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um hvernig við getum fengið fólk til að skýra mál sitt?