149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur stundum minnt mig á söguna um nýju fötin keisarans. Hér komu stjórnarliðar og kannski ekki síður helstu aðdáendur þessa máls, þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar, og báru mikið lof á skartklæði keisarans. Hins vegar virðast vera farnar að renna tvær grímur á þá hv. þingmenn því að ekkert hefur til þeirra eða sjónarmiða þeirra spurst alllengi. Því meira sem kemur fram í umræðunni þeim mun meira draga þeir sig inn í skelina.

Þótt það sé ekki vaninn að hrósa sérstaklega liðsmönnum annarra flokka ætla ég að taka smááhættu í fyrirspurn minni til hv. þingmanns og spyrja hvort hann geti tekið undir það með mér að í stuðningshópi Sjálfstæðisflokksins sé að finna gríðarlega margt öflugt, heiðvirt og traust prinsippfólk. Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr um þann flokk sérstaklega, á morgun fagnar hann 90 ára afmæli sínu. Þá gefst hv. þingmönnum flokksins væntanlega tækifæri til að hitta sína flokksmenn.

Spurningin er þessi: Er hv. þingmaður sammála um þetta mat mitt á stórum hópum innan stuðningsliðs Sjálfstæðisflokksins, kjósenda þess flokks, að þar sé mjög margt prinsippfólk að finna? Bindur hann vonir við að á afmælisdeginum á morgun muni það fólk geta bent ráðherrum sínum á að keisarinn sé klæðlaus?